*

Menning & listir 21. maí 2013

Ætlar að tala um Sval og Val í meira en tíu tíma

Stefán Pálsson gerir atlögu að ræðumeti Jóhönnu Sigurðardóttur. Hann unnir Sval og Val en kallar Tinna menntamannaskrípó.

Jón Aðalsteinn Bergsvein
 - jon@vb.is

„Bækurnar um ævintýri Svals og Vals höfða til alþýðunnar,“ segir sagnfræðingurinn og teiknimyndasögu-unnandinn Stefán Pálsson. Hann heldur í fyrramálið erindi um fransk-belgísku myndasögubækurnar í tilefni af því að á þessu ári eru liðin 75 ár síðan fyrsta teiknimyndablaðið um Sval kom út á vegum Dupuis-forlagsins. 

Stefán segir í samtali við vb.is það sem greini bækurnar um Sval og Val frá öðrum myndasögubókum sem fönguðu athygli barna og ungmenna á áttunda og níunda áratug síðustu aldar sé það að ævintýri þeirra gerist alltaf í samtímanum. Það er ólíkt bókunum um Lukku-Láka og Ástrík og Steinrík sem gerast á ákveðnum tímaskeiðum. Að því leiti megi segja að heimur þeirra þróist á meðan hinir einskorðist við ákveðin tímabil. Þá hefur vægi kvenpersóna í bókunum aukist í seinni tíð. Eins og þeir sem lágu yfir bókunum á árunum áður ættu að þekkja sást vart kvenpersóna í bókunum og Svalur, sem alla tíð hefur verið klæddur eins og lyftuþjónn, næsta áhugalaust um hitt kynið. Í takt við breytta tíma hefur kvenpersónum fjölgað og áhugi Svals á konum sömuleiðis. 

Svalur leit dagsins ljós árið 1938 og hafa komið út fjölmargar bækur um hann og félagann Val síðan þá auk aukapersóna sem hafa komið og farið í myndasögunum. Þar á meðal má nefna bækurnar um Viggóð viðutan og gormdýrið. Bækurnar um Sval og Val lifa enn góðu lífi og kom þriðja bókin frá núverandi höfundum og teiknurum út fyrr á þessu ári, að sögn Stefáns. Hann bendir á að þótt Íslendingar hafi ekki séð nýjar bækur um nokkurt skeið þá séu sögurnar enn á góðu róli. 

„Ég veit að það er vilji hjá unnendum Svals og Vals að fleiri bækur komi út á íslensku,“ segir hann.

Spurður út í muninn á bókunum um Sval og Val og svo bækurnar um Tinna segir Stefán:

„Það fer í taugarnar á mér þetta endalausa Tinna-blæti. Hann tekur sig ofboðslega alvarlega á meðan Svalur og Valur gera það ekki. Tinni er meira menntamannaskrípó á meðan Svalur og Valur höfða meira til alþýðunnar,“

Vonar að vinirnir kíki um kvöldið

Stefán ætlar ekki aðeins að halda erindi um myndasögurnar um Sval og Val. Hann ætlar að gera það langt fram eftir degi. Hann ætlar jafnframt að gera atlögu að Íslandsmetinu í ræðuhöldum. Metið setti Jóhanna Sigurðardóttir á Alþingi árið 1998 þegar hún ræddi þar um húsnæðiskerfið. Ræðan varði í rúmar 10 klukkustundir. Stefán ætlar að gera betur í erindi sínu fram hann heldur í Friðarhúsi við Njálsgötuna. 

„Ég renn svolítið blint í sjóinn með þetta en stefni á að vera fram á kvöld. Þegar líður á býst ég við að eitthvað af vinum og kunningjum reki inn nefið eftir vinnu. 

Erindi Stefáns hefst sem fyrr segir klukkan 9 í fyrramálið og verður fyrirlesturinn haldinn í Friðarhúsi, Njálsgötu 87. Þeir sem ekki sjá sér fært að fara úr húsi geta fylgst með erindinu í beinni vefútsendingu á netinu. Slóðin er: svalur.­illuminati.­is