*

Viðtöl 15. nóvember 2017

Sumir fara í golf en ég vinn sem tannlæknir

Heimir Hallgrímsson landsliðsþjálfari lítur á starfið sem afþreyingu.

Veftímaritið Ey var gefið út í fyrsta sinn um helgina en það er Vestmannaeyjabær sem stendur að útgáfunni og er ætlunin að styðja við menningu og mannlíf í bænum. Tímaritið er hluti af markaðsátaki sem er til þess fallið að gleðja Vestmanneyinga og gesti bæjarins og verður bryddað upp á mörgu í átakinu og má þar nefna að haldin verður matarhátíð og skipulagðar gönguleiðir til að sjá hvað bærinn hefur upp á að bjóða. Í þessari fyrstu útgáfu er komið víða við og meðal annars tekið viðtal við lunda á fiska- og náttúrugripasafninu Sæheimum, veitingamennina Gísla og Gísla og síðast en ekki síst sjálfan Heimi Hallgrímsson landsliðsþjálfara.

Heimir sem er Vestmanneyingur í húð og hár hefur mikið dálæti á heimabæ sínum og kemur fram í viðtalinu að þangað fer hann þegar möguleiki er á til að núllstilla sig. „Mér líður vel í Eyjum og geng mikið á fjöll til þess að tæma hugann. Ég fæ alltaf orku frá umhverfinu þarna,“ segir hann.

Eins og margir vita er Heimir tannlæknir að mennt og starfar sem slíkur þegar hann kemur því við. Hann er með stóran hóp viðskiptavina í Eyjum og lítur á starfið sem afþreyingu sem hann nýtur og segist aldrei ætla að hætta að starfa sem tannlæknir. „Sumir þjálfarar fara í golf, ég fer að vinna sem tannlæknir. Það er gott finnst mér að geta gert það,“ segir hann.

Viðtalið í heild sinni má lesa inni á www.eytimarit.is.