*

Bílar 3. júlí 2021

Ættleiddi forláta Corvettu

Hilmar Harðarson ættleiddi á dögunum forláta Corvettu sem hann segir að sé aðaláhugamálið um þessar mundir.

Róbert Róbertsson

Hilmar Harðarson, formaður Samiðnar og FIT, er mikill bílaáhugamaður og hefur átt fleiri bíla en hann hefur tölu á að eigin sögn. Hann segist alltaf hafa verið veikur fyrir tryllitækjum og flottum sportbílum. Hilmar ættleiddi á dögunum forláta Corvettu sem hann segir að sé aðaláhugamálið um þessar mundir. Hilmar er að vinna í að gera Corvettuna upp og koma bílnum á götuna.

„Ég fékk bíladelluna snemma og lærði bifvélavirkjann út af þessari dellu. Ég starfaði hjá Heklu og Velti sem bifvélavirki í mörg ár. Ég var einnig eigandi verkstæðisins Bílson. Ég hef gaman af öllu sem viðkemur bílum. Ég hef mjög gaman af torfærunni en horfi einnig mikið á Formúluna. Ég er mikill áhugamaður um gamla bíla og finnst gaman að sjá þegar þeim er haldið vel við. Ég hef alltaf verið veikur fyrir tryllitækjum og flottum sportbílum. Ætli Ford Mustang hafi ekki alltaf verið ofarlega í huga mínum og það eru fleiri sem mann dreymdi um,“ segir Hilmar dreyminn á svip.

Gaman af því að fara í jeppaferðir upp á hálendið

„Ég hef átt mjög marga bíla um ævina og fleiri en ég hef tölu á. Fyrsti bíllinn minn var Volkswagen Bjalla þegar ég var 17 ára. Það var sjarmi yfir honum. Svo eignaðist ég marga flotta og skemmtilega bíla, Toyota, Mitsubishi, Volkswagen, Audi og fleiri tegundir.“

Hilmar segir að L300-jeppinn frá Mitsubishi hafi verið mjög eftirminnilegur. „Það var skemmtilegur jeppi. Það var hægt að gista í honum. Það var hægt að setja læst drif í hann þannig að hann kæmist í meiri torfærur á hálendingu. Ég hef alltaf haft gaman af því að fara í jeppaferðir upp á hálendið. Ég hef verið duglegur að ferðast á hálendinu, bæði að veiða með félögum og fjölskyldu og síðan í klassískar fjölskylduferðir. Ég hef verið mjög duglegur að ferðast innanlands og hef einnig gengið á fjöldamörg fjöll. Ég hef m.a. gengið Fimmvörðuhálsinn og Laugaveginn. Ég hef verið í  félagsskapnum 52 fjöll, sem er á vegum Ferðafélags Íslands,“ segir hann.

Spurður um fallegustu staðina á Íslandi svarar hann:

„Uppáhaldsstaðurinn er líklega Þórsmörk en Gæsavatnaleiðin og Askja eru einnig mjög skemmtilegir og fallegir staðir. Við eigum svo fallegt land að það eru alls staðar fallegir staðir.“

Ótrúleg þróun í bílaiðnaðinum

Hilmar var kosinn formaður Samiðnar – Sambands iðnfélaga, árið 2013. Tólf félög iðnaðarmanna eiga aðild að Samiðn með rúmlega sjö þúsund félagsmenn í byggingagreinum, málmgreinum, bílgreinum, tækniteiknun, skipasmíðum, garðyrkju og snyrtigreinum. Samiðn annast m.a. kjarasamningagerð fyrir hönd aðildarfélaga sinna. Hilmar er einnig formaður FIT – Félags iðn og tæknigreina, sem er stærsta aðildarfélag Samiðnar með tæplega fimm þúsund félagsmenn. Félagsstörf hafa verið brennandi áhugamál hans ásamt því að veiða fisk á flugu og að sjálfsögðu bílum.

„Það er ótrúleg þróun sem hefur átt sér stað í bílaiðnaðinum á allra síðustu árum. Nýorkubílar eru að taka yfir markaðinn smám saman. Tæknin er einnig gríðarleg í þessum nýju bílum. Bílar sem eyddu kannski 20-25 lítrum eru komnir niður í 7-8 lítra með nýjum vélum. Ég er mikill áhugamaður um nýjungar í bílum. Rafmagn, vetni og gas eru allt spennandi orkugjafar. Rafmagnið er mjög áberandi núna í nýjum bílum en ég tel að við Íslendingar eigum góða möguleika með alla þessa orkugjafa. Það er mjög spennandi ef við getum minnkað mengunina og það er það sem er að gerast með þessum nýju orkugjöfum eins og rafmagni en það verður einnig áhugavert að sjá hvort við Íslendingar getum nýtt vetni og gas.“

Með stóra járnkassa sem voru einfaldir í viðgerðum

Hilmar rifjar upp gríðarlegar breytingar í bíliðnaðinum frá því að hann var sjálfur að vinna sem bifvélavirki hjá Velti og Heklu.

„Við vorum með stóra járnkassa með mælum í sem voru tiltölulega einfaldir í viðgerðum. Þá var bara húddið opnað og gert við. Núna í dag eru bílar búnir þvílíkri tækni að það þarf að lesa þá í tölvum ef á að gera við þá. Breytingarnar hafa orðið svo hraðar. Mér finnst það merkilegt hvað framþróunin hefur verið mikil í tækni og orkugjöfum. Þetta heillar mig. Ég hef verið duglegur að fara á bílasýningar erlendis. Mér finnst mjög spennandi að sjá hvað er að gerast í bílaiðnaðinum hverju sinni. Það er gaman að sjá nýja og spennandi bíla,“ segir hann.

Hilmar segir að það séu sannarlega spennandi tímar í bílaiðnaðinum núna og gríðarlegar breytingar sem eru í gangi „Það er spennandi að sjá hvað bílar eru farnir að komast langt á rafmagninu. Þeir eru mjög öflugir og fljótir upp. Hönnunin er mjög flott á þeim mörgum. Mörg af þessum stóru bílamerkjum eru að koma fram með mjög spennandi bíla. Tækninni fleytir fram og við erum að sjá sjálfkeyrandi bíla koma brátt á markað. Þeir eru handan við hornið.“

Nánar er fjallað um málið í sérblaðinu Bílar sem fylgir Viðskiptablaðinu.

Stikkorð: Corvette  • Samiðn  • Hilmar Hilmarsson  • 52 fjöll