*

Veiði 29. apríl 2017

Ævintýri í ljósaskiptunum

„Það er stórkostlegt að byrja veiðisumarið með þessum hætti," segir veiðimaðurinn Emil Gústafsson.

Trausti Hafliðason

Óhætt er að segja að veiðisumarið hjá veiðimanninum Emil Gústafssyni hafi byrjað með hvelli. Að kveldi sumardagsins fyrsta, í ljósaskiptunum, réðist risaurriði á fluguna og eftir snarpa baráttu tókst Emil að draga fiskinn á land.

Stangveiðitímabilið er nú komið ágætis skrið. Um síðustu mánaðamót hófst veiði í nokkrum vötnum og sjóbirtingsám og á sumardaginn fyrsta opnaði eitt stórkostlegasta veiðivatn veraldar, Þingvallavatn. Auk ísaldarurriðans lifa fjórar deilitegundir bleikju í vatninu en það eru kuðungableikja, sílableikja, murta og dvergbleikja, sem einnig er nefnd gjámurta.

Emil hefur miklar mætur á Þingvallavatni.

„Ég fer alltaf í opnuna, það er hefð hjá mér" segir Emil. „Aðstæður voru ekkert sérstakar núna. Það má segja að það hafi verið hefðbundið fyrsta sumardagsveður — kalt og hvasst. Ég byrjaði að veiða síðdegis og þegar sólin var að setjast þá tók þessi væni urriði fluguna. Þetta gerist oft í ljósaskiptunum, eins og margir veiðimenn vita."

Tók Nobbler við Vatnskot

Emil var við veiðar í Vatnskoti þegar fiskurinn tók.

„Hann tók hvítan Nobbler en ég nota þá flugu, sem og Black Ghost, mikið þegar ég er að eltast við urriðann í Þingvallavatni. Fiskurinn tók nánast þegar ég var að fara að taka línuna upp úr vatninu. Hann var sem sagt kominn alveg upp að landi þegar hann beit á. Það skipti engum togum að hann rauk út með alla línuna. Ég var mjög lengi með alla línuna úti þegar ég var að kljást við hann. Síðan þegar ég var búinn að koma honum langleiðina til mín þá sá ég hann og hann mig auðvitað og rauk aftur út. Eftir svona 20 mínútur eða hálftíma náði ég loks að landa honum. Fiskurinn mældist 85 sentímetra langur og 55 sentímetrar um kviðinn. Þetta var því ansi vænn urriði. Ætli hann hafi ekki verið svona 16 til 18 pund."

Í byrjun veiðitímabilsins í Þingvallavatni, eða þar til 31. maí, má einungis veiða á flugu og ber veiðimönnum skylda að sleppa öllum urriða. Er það gert til að vernda þann merka stofn sem ísaldarurriðinn er.

„Ég rétt lyfti fisknum upp til að smella af mynd og síðan sleppti ég honum að sjálfsögðu. Hann var mjög sprækur og rauk út í vatn um leið og ég setti hann ofan í aftur."

Einn stærri

Að sögn Emils var þetta nokkuð erfið barátta. Hann var með tíu feta stöng fyrir línu númer átta og tuttugu punda taum. Línan var hægsökkvandi.

„Þessi fallegi urriði tók ansi vel í. Þetta er stærsti fiskur sem ég hef veitt í opnun Þingvallavatns. Ég hef nokkrum sinnum náð 60 til 70 sentímetra urriðum en aldrei svona stórum. Það er stórkostlegt að byrja veiðisumarið með þessum hætti. Ég ber miklar væntingar til veiðinnar í Þingvallavatni í sumar."

Þó urriðinn, sem Emil landaði fyrir viku, sé sá stærsti sem hann hefur veitt við opnun vatnsins hefur hann áður veitt stærri fisk í vatninu.

„Þann 6. maí fyrir þremur árum landaði ég mínum eftirminnilegasta fiski í vatninu en það var 96 sentímetra urriði, sem áætlað er að hafi verið um 24 pund. Þá sem gerði þá baráttu eftirminnilega var að ég var með stöng fyrir línu sex og 14 punda taum. Ég var sem sagt að egna fyrir bleikju þegar þessi stóri urriði tók. Það tók mig því tæplega klukkustund að koma þessum risafiski á land."

Lætur gamlan draum rætast

Spurður hvort hann ætli að veiða mikið í sumar svarar Emil: „Ég er búinn að bóka óvenju mikið. Ég fer þrisvar til fjórum sinnum í Elliðaárnar, síðan ætla ég í Langadalsá, Haukadalsá og Langá. Í sumar ætla ég líka að láta gamlan draum rætast og fara í Laxá í Aðaldal. Það hefur lengi verið á listanum hjá mér að fara þangað. Ég verð á Laxárfélagssvæðinu í byrjun september og hlakkar mikið til."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: urriði  • Þingvallavatn  • veiði  • Stangaveiði