*

Ferðalög & útivist 20. maí 2013

Áfangastaðir fyrir alls konar týpur

Það getur verið flókið að velja réttu borgina þegar halda skal til útlanda.

Lára Björg Björnsdóttir

Hvert skal halda þegar farið er í frí til útlanda? Sumir vilja bara góða pizzu á meðan aðrir kjósa að klæðast miðaldafötum. Hér koma nokkrar tillögur að borgum fyrir ólíkar týpur. Góða ferð.

Fornleifafræðingurinn: Luxor, Egyptaland. Í Luxor er ýmislegt fallegt að sjá eins og fornminjar Egypta. Úr borginni er hægt að sigla yfir Níl og heimsækja grafirnar í Konungadalnum. Í Luxor er stórt og mikið musteri og þar eru sýningar þar sem farið er yfir sögu Egypta.

Bjórþambarinn: Dublin, Írland. Þetta er borgin fyrir bjórþambandi hressleikaliðið. Ef dimmar krár innan um verslunarkeðjur á borð við Vero Moda og Whistles heilla þá er þetta rétta borgin fyrir þig. Flugið er stutt svo það er varla tími fyrir almennilegt flughræðslukast. Og Írar hata ekki Kanann, fyrir ykkur sem talið ensku með bandarískum hreim því ykkur finnst það gaman.

Hver sem er; New York, Bandaríkin. Borgin er góð fyrir allar týpur. Grænmetisætur geta velt sér upp úr salatblöðum og graskögglum á hverju götuhorni, glútenofnæmisfólkið getur valið úr veitingastöðum sem bjóða bara upp á glútenlausa fæðu. Það liggur við að það sé hægt að finna veitingastað sem býður bara upp á mat sem byrjar á Z eða bara bláan mat, slíkt er úrvalið og hugmyndaflugið. Listunnandinn getur þrætt söfn á meðan kaupóða fimm barna móðirin getur farið í þrjár H&M, allar í sömu götunni. Í New York er einfaldlega allt fyrir alla, eins klisjulega og það nú hljómar.

Hávaxni pizzu-unnandinn: Chicago, Bandaríkin. Í Chicago er meðalhæð íbúa í kringum 2 metrar á hæð (smá ýkjur) svo að hávöxnu fólki ætti að líða vel í borginni. Heimamenn eru tryllingslega hressir og opnir og glaðir og eru boðnir og búnir að leiðbeina túristum sem finna ekki næsta Toys’R’Us. Í Chicago er besti pizzastaður í heimi en hann heitir Ginos East. Það eru engin lýsingarorð nægilega sterk svo ekki verður reynt að útskýra dýrðina sem þessar pizzur eru en ekki vera í tímaþröng því það tekur um klukkustund eða svo að elda pizzuna.

Sagnfræði- og menningarsuðupottanördið: Marseilles, Frakkland. Í hafnarborginni Marseilles við Miðjarðarhafið er bubblandi suðupottur ólíkra menningarheima. Menningararf Araba, Frakka og Grikkja má víða sjá í arkitektúr og í matarhefð. Í borginni er fiskihöfn og þar koma sjómenn að landi snemma á morgnanna með aflann sinn. Þar fyrir eru mættir bændur með sítrónur og lárviðarlauf og þá geta kúnnarnir, íbúar og ferðamenn, keypt allt sem til þarf í dýrindis fiskisúpu. Sem er auðvitað þjóðarréttur borgarinnar.

Tónlistarunnandinn: Lucca, Ítalía. Borgin Lucca kemur fyrir í Sturlungu, þar heitir hún Lukkuborg en hún var áningarstaður á leið til Rómar. Landsvæðið í kringum Lucca er dýrðlegt en borgin er í miðri Toscana. Veggurinn umhverfis borgina er það heillegur að hægt er að ganga á honum í kringum alla borgina. Tónskáldið Puccini, sem samdi meðal annars La Boheme, bjó í Lucca. Á kvöldin eru haldnir útitónleikar á litlum torgum og í görðum víðsvegar um borgina.

Miðaldamenningaráhugamanneskjan: Visby, Gotland, Svíþjóð. Á sumrin er haldin miðaldarmenningarhátíð í Visby. Þá klæðast íbúar fötum frá miðöldum. Markaðir með mat og allskonar miðaldamuni eru í hverri götu. Tónlistarfólk hvaðanæva úr Evrópu mætir á svæðið og spilar miðaldatónlist. Skemmtilegar uppákomur úr sögu borgarinnar eru settar á svið. Til dæmis orustan um Visby þegar  Valdimar Danakonungur réðst inn fyrir borgarmúra árið 1361. Ferðamönnum er að sjálfsögðu boðið að taka þátt í fjörinu.

Sá sem vill fá frið: San Sebastian, La Gomera (Kanaríeyjar). Borgin San Sebastian er á eyjunni La Gomera sem er við hliðina á Tenerife. Andrúmsloftið í San Sebastian er rólegt og afslappað. Eina fjörið er hin árlega hátíð Sebastians þar sem íbúar fagna degi þessa dýrlings og þá er tónlist og matur á torgum og líkneski San Sebastians þvælt um götur og stíga. Úr borginni er hægt að ganga á mörg fjöll þar sem fáir eru á ferli. Borgin er ekki full af túristum, þeir sem heimsækja San Sebastian koma oftast í dagsferðir frá Tenerife og fara aftur tilbaka fyrir kvöldmat. Og þá getur sá sem vill fá frið farið út, rölt um, sýnt sig og séð engann. 

 

 

 

 

 


 

 


Stikkorð: New York  • Marseille  • Visby  • Dublin  • San Sebastian  • Luxor