*

Heilsa 15. apríl 2016

Áfengisneysla og líkamsrækt

Yfirleitt tengjum við hvers kyns líkamsrækt við vatnsdrykkju, hollustu og heilbrigða lifnaðarhætti en síður við neyslu áfengra drykkja.

Steinunn Þorvaldsdóttir

Samkvæmt faraldsfræðilegri rannsókn frá árinu 2001 er hófdrykkjufólk tvisvar sinnum líklegra til að stunda líkamsrækt en bindindismenn. Tvær nýjar rannsóknir benda svo til að líkamsrækt geti haft áhrif á hvenær og hversu mikið fólk neytir áfengis og jafnframt að samspilið milli líkamsræktar og áfengisneyslu geti verið jákvætt.

Til að fara betur í saumana á tengslunum milli þess að drekka áfengi og svitna í ræktinni skoðuðu vísindamenn við Pennsylvania State háskólann 150 manna hóp, sem samanstóð af körlum og konum á aldursbilinu 18 til 75 ára, en niðurstöðurnar birtust í Health Psychology í júní í fyrra.

Með þessari rannsókn var í fyrsta sinn hægt að sýna fram á ótvíræða fylgni milli þess að fólk fengi sér áfengi í beinu framhaldi af því að stunda líkamsrækt. Átti þetta sérstaklega við ef viðkomandi hafði tekið meira á því en venjulega. Gilti einu um hvaða dag vikunnar var að ræða, hvort kynið átti í hlut og hver staða fólksins var. Ekkert benti þó til að líkamsrækt stuðlaði að ofdrykkju og mjög sjaldgæft að fólk drykki meira en fjóra til fimm drykki í röð.

Auðvitað getur svona rannsókn ekki útskýrt hvers vegna líkamsrækt og áfengisneysla ætti almennt að tengjast. Rannsóknin sem sagt var frá í Front Psychiatry í nóvember í fyrra gefur því óneitanlega spennandi sjónarhorn á þá umræðu. Í henni voru viðbrögð nagdýra við áfengisneyslu og þjálfun könnuð og sýndi hún fram á aukna starfsemi í þeim svæðum heilans sem tengjast umbunarferli bæði þegar þau hlupu og neyttu áfengis.

Þó að dýraheilarnir hafi sýnt svipuð viðbrögð við áfengisneyslu og hreyfingu var svörunin ekki sú sama. Mestu viðbrögðin sýndu dýrin þegar þau gátu gert hvort tveggja og virtist víman sem fylgdi yfirleitt vera bæði almennari og endast lengur en þegar annað athæfið var stundað eingöngu. Töldu rannsakendurnir að hugsanlega eigi eitthvað sambærilegt sér stað hjá fólki sem er í líkamsrækt og drekkur áfengi. Þegar við finnum þessa léttu vímu eftir æfingu leitumst við kannski ómeðvitað við að framlengja tilfinninguna með því að fá okkur drykk.

Atferli okkar er þó öllu flóknara en nagdýra og líklegra að við tvinnum saman líkamsrækt og áfengisneyslu af ýmsum öðrum ástæðum. Margir stunda líkamsrækt til að brenna hitaeiningum sem þeir hafa bætt á sig vegna áfengisdrykkju og er hún þá hvatinn að líkamsræktinni. Félagsandinn á oft stóran þátt í hvoru tveggja og getur hann hvatt fólk til að hittast á barnum eftir æfingu og jafnframt þá sem nenna ekki í ræktina til að mæta vegna umbunarinnar sem þeir fá eftir æfingu.

Þótt hófdrykkjumaðurinn sé ólíklegur til að missa tökin fyrir tilstilli líkamsræktarinnar er hugsanlegt að margir hafi ekki veitt því sérstaka athygli að þeir fái sér einn eða tvo aukabjóra þá daga sem þeir fara út að hlaupa eða í ræktina. Spáum í það.

1.       J Stud Alcohol. 2001 Jul;62(4):467-76.

2.      Health Psychol. 2015 Jun; 34(6): 653–660.

3.      Front Psychiatry. 2015 Nov 2;6:156. doi: 10.3389/fpsyt.2015.00156. eCollection 2015.

Stikkorð: Heilsa  • Líkamsrækt  • Áfengi