*

Bílar 22. apríl 2015

Á aflmesta rafbíl á Íslandi

Magnús Garðarsson hefur keypt Tesla Model S P85D, aflmesta rafbíl sem keyrt hefur á götum Íslands.

Magnús Garðarsson, stofnandi United Silicon, sem byggir kísilverksmiðjuna í Helguvík, hefur keypt fyrsta Tesla Model S P85D sem er fjórhjóladrifinn og aflmesti rafbíll sem komið hefur til Íslands. Magn- ús er mikill áhugamaður um rafbíla og á annan Tesla bíl í Danmörku þar sem hann á einnig heimili.

„Síðustu ár hef ég aðhyllst rafbílana og pantaði mína fyrstu Teslu í apríl 2009. Það er Tesla Model S með stórri 85 Kwh rafhlöðu og vel búinn bíll. Það var mikil bið eftir þeim bíl og ég beið í 4½ ár og fékk hann loks afhentan í byrjun októ- ber 2013. Það er frábær bíll þótt það sé meiri búnaður í þessum nýja sem ég var að kaupa núna auk þess sem hann er með fjórhjóladrifi og tvo mótora,“ segir Magnús.

„Bíllinn er eins og eldflaug af stað, slíkur er krafturinn. Það er sérlega gaman að keyra bílinn í Sport og Insane stillingunum enda feykilegt afl. Svo eru óteljandi valmöguleikar í tækninni sem stýra má á snertiskjánum eins og útvarp, tenging beint við síma, GPS, internet, tölvupóstur og svo getur maður bætt vid appi í tölvu bílsins, eins og t.d. spotify, youtube, facebook og annað sem manni finnst gaman að,“ segir Magnús.

Bíllinn kostar rúmar 20 milljónir króna samkvæmt upplýsingum frá Even. Teslan kom til landsins í lok mars en Magnús pantaði hann í desember sl. „Bíllinn er aðeins knúinn raforku og er þannig á Íslandi keyrður að mestu leyti á vatnsorku. Þess vegna valdi ég númer bílsins NO CO2 og er þar vísað til þess að enginn útblástur er frá bílnum enda hreinn og tær rafmagnsbíll,“ segir Magnús.

Nánar er spjallað við Magnús í Bílum, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.