*

Bílar 31. mars 2015

690 hestafla Tesla komin á götuna

Magnús Garðarsson hefur keypt Tesla Model S P85D, en bifreiðin er sú fyrsta sinnar tegundar hér á landi.

Magnús Garðarsson, stofnandi United Silicon, sem byggir kísilverksmiðjuna í Helguvík, hefur keypt glæsilegan Tesla Model S P85. Even í Smáralind flutti bílinn til landsins. Þetta er aflmesti og dýrasti rafbíll sem komið hefur til Íslands. Bíllinn er nýkominn til landsins en Magnús pantaði hann í desember sl. Númer bílsins er NO CO2 og er þar vísað til þess að enginn útblástur er frá bílnum enda hreinn og tær rafmagnsbíll.

Bíllinn er gríðarlega kraftmikill. Hann er fjórhjóladrifinn og með tvo rafmótora, einn að framan og einn að aftan. Rafmótorarnir tveir skila samtals 690 hestöflum. Bíllinn er aðeins 3,4 sekúndur úr kyrrstöðu í hundraðið samkvæmt upplýsingum frá framleiðanda. Hámarkshraði bílsins er 250 km/klst.

Hámarksdrægni bílsins er 480 km við bestu hugsanlegu aðstæður en það tekur 4 klukkustundir að hlaða rafhlöðurnar að fullu úr því að vera tómar. Í hraðhleðslu er hægt að hlaða rafmótorana á 30 mínútum og þá dregur bíllinn 350 km samkvæmt framleiðanda. Þess má geta að farangursrými bílsins er alls 800 lítrar. Bíllinn er afar vel búinn og með miklum lúxus innanborðs.

Magnús er mikill áhugamaður um rafbíla og var í hópi á þriðja hundrað ökumanna sem komust sl. sumar í heimsmetabók Guinnes fyrir lengstu samfelldu röð rafbíla sem ekið hefur saman. Yfir 220 rafbílar óku þá yfir Eyrarsundsbrúnna, frá Malmö til Kaupmannahafnar og slógu heimsmetið.