*

Bílar 14. mars 2018

Aflmikill AMG GT Coupé

Mercedes-Benz frumsýndi nýjan og glæsilegan AMG GT Coupé 4 dyra á bílasýningunni Genf.

Mercedes-Benz frumsýndi nýjan og glæsilegan AMG GT Coupé 4 dyra á bílasýningunni Genf. Þetta er fyrsti fjögurra dyra sportbíllinn úr smiðju Mercedes-Benz og nýjasta afkvæmið í hinni mögnuðu AMG fjölskyldu þýska lúxusbílaframleiðandans.

Hönnunin er sérlega sportleg og ber vott um þann kraft sem leynist undir húddinu á þessum bíl. Hann er í boði í þremur vélarútfærslum. AMG GT 53 er með 3 lítra vél sem skilar 429 hestöflum. Bíllinn fer úr kyrrstöðu í hundraðið á 4,4 sekúndum. AMG GT 63 er með 4 lítra V8 vél með tvöfaldri forþjöppu sem skilar 577 hestöflum og er aðeins 3,3 sekúndur í hundraðið. Sá aflmesti er AMG GT 63 S en sá er með sömu 4 lítra V8 vélina sem skilar 630 hestöflum og hámarkstogið er hvorki minna né meira en 900 Nm. Bíllinn fer úr kyrrstöðu í hundraðið á aðeins 3,2 sekúndum. Hámarkshraði bílsins er 315 km/klst.