*

Veiði 17. maí 2019

Afmælishátíð SVFR hefst í dag

Hátíðardagskrá alla helgina — hoppukastali, kaka og pylsur fyrir börnin — frítt að veiða í Elliðavatni.

Stangaveiðifélag Reykjavíkur fagnar 80 ára afmæli í dag, 17. maí. Í tilefni af afmælinu verður hátíðardagskrá alla helgina. Frá klukkan 17 til 19 í dag verður efnt til afmælisveislu í Elliðaárdalnum, þar sem boðið verður upp á veitingar og skemmtun í anda tilefnisins.

Sýnd verður heimildarmynd um stangveiði sem SVFR lét gera árið 1949, boðið verður upp á kastsýningar og fræðslu um fiskirannsóknir, efnt verður til veiðileyfahappdrættis, seiði og fiskar úr Elliðaánum verða til sýnis og gengið verður með ánni. Hoppukastali verður fyrir börnin og boðið verður upp á afmælistertu og pylsur.

Á morgun, laugardag, verður árshátíð félagsins endurvakin en hún hefur ekki verið haldin í um áratug. Fer árshátíðin fram á Hótel Sögu.

Á sunnudag býður SVFR svo öllum veiðimönnum að kasta fyrir fisk í Elliðavatni án endurgjalds. Þar hafa margir veiðimenn stigið sín fyrstu skref í veiðinni og veitt fallega fiska.