*

Ferðalög & útivist 2. júlí 2017

Afslöppuð vatnaborg

Bern er ekki endilega þekktasti áfangastaður ferðamanna í Sviss, en höfuðborgin, ásamt nágrannabænum Thun, býður upp á óvænta sundmenningu.

Höskuldur Marselíusarson

Þegar komið er til höfuðborgar Sviss, Bern, verður gestinum fljótt ljóst að andrúmsloftið í borginni er mun afslappaðra en almennt í vestrænum höfuðborgum. Borgin er staðsett á fallegum hæðum þar sem straumhörð Aare-áin flæðir í gegn og færir með sér svala sem slær á heitt meginlandsloftslagið.

Þess utan er ástæðan líklega sú að borgin er einfaldlega minni en flestar höfuðborgir, enda hlutverk alríkisstjórnarinnar í einstaklega lýðræðislegu skipulagi Svisslendinga lítið, og ekki er allt yfirfullt af ferðamönnum eins og svo víða.

Gamla borgin, sem er á heimsminjaskrá UNESCO, er umvafin ánni á þrjár hliðar, og er andi blómaskeiðs hennar á miðöldum þar enn sterkur. Borgin er stundum kölluð borg gosbrunnanna, en í borginni eru yfir 100 brunnar, sem eru bæði fallegir, en einnig nytsamir, enda veita þeir þreyttum ferðamönnum fullkomlega svalandi og drykkjarhæft vatn.

Brunnarnir voru reistir í kringum 1550 og bera skreytingarnar vitni um hetjur og sögulega atburði í borginni á þeim tíma og þá auðsköpun sem þá þegar hafði átt sér stað í frelsinu sem fylgdi þegar fyrstu kantónurnar brutust undan ægivaldi konungsríkjanna í kring.

Bern er fjórða stærsta borg Sviss, með rúmlega 141 þúsund íbúa, en höfuðborgarsvæðið allt hýsir um 660 þúsund manns. Vitað er um bæði keltneskar og rómverskar byggðir á svæðinu, en saga borgarinnar í núverandi mynd er rakin til ársins 1191 þegar greifinn af Zähringer stofnaði borgina.

Í hjarta borgarinnar stendur þinghús landsins. Þingmennirnir starfa einungis í hlutastarfi sem þingmenn, enda situr þingið ekki nema við og við í þessu landi sem treystir íbúum til að hafa sitt að segja um nálega alla löggjöf. Þar fyrir framan er torg með skemmtilegum gosbrunnum sem spretta óreglulega og óvænt upp úr lítt sjáanlegum holum í gangstéttunum. Á heitum sumardögum má sjá aldna jafnt sem unga leika sér við að hlaupa undan slettunum eða eltast við að fá vatnið yfir sig til kælingar.

Hressandi sundferð í straumharðri á

Heimsókn til Bern að sumarlagi er ekki fullkomnuð án þess að skella sér í sundferð í straumharða ána. Er það uppáhaldsiðja borgarbúa og má sjá út um alla borg fólk annaðhvort með sundföt meðferðis, eða jafnvel bíða í röðum eftir ís eða öðrum veitingum í baðfatnaðinum einum saman.

Nýta margir sér ána jafnvel til að ferðast til eða frá vinnu. Hafa þeir þá með sér sérstaka vatnshelda poka til að halda fötunum þurrum, en meðfram ánni eru víða garðar þar sem fólk liggur til þerris og nýtur sólarinnar, og ýmiss konar sund-, og skiptiaðstaða.

Kom blaðamanni á óvart hve hratt straumurinn bar hann niður eftir, og þó að vatnið hafi verið kalt viðkomu í fyrstu, var það ótrúlega skemmtileg reynsla að láta sig fljóta niður eftir ánni, í hópi hlæjandi íbúa, meðan hann virti fyrir sér fallegar byggingarnar á árbakkanum.

Kastali umkringdur stórbrotnum fjöllum

Einungis um 30 kílómetrum suður af Bern er bærinn Thun, sem sumir segja sé einn mest hrífandi bærinn í gjörvöllu Sviss. Líkt og í Bern er vinsælt meðal íbúa þessa um 44 þúsund manna bæjar, sem er í sömu kantónu og höfuðborgin, að baða sig í Aare ánni sem flæðir úr Thun vatninu og endar að lokum í Rín.

Á árbakkanum eru margir veitingastaðir en yfir borginni gnæfir hinn fallegi Thun kastali með sínum sléttu hvítu veggjum, en hann var reistur á 12. öld. Í kastalanum er nú safn sem er tileinkað sögu og menningu svæðisins. Þar má meðal annars finna Riddarasalinn, best varðveitta hátíðarsal Svisslendinga frá miðöldum.

Á litlum og þægilegum göngustígunum upp að kastalanum eru margir notalegir bekkir þar sem halla má sér í góðum félagsskap og horfa á fjallasalina sem gnæfa yfir bæinn. Eru þar mest áberandi þríburafjöllin Eiger, Mönch og Jungfrau, ásamt hinum allsérstaka gostoppi Stockhorn, sem minnti blaðamann á Þuríðarklett í Óshyrnunni sem gnæfir yfir heimabæ hans Bolungarvík.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.

Stikkorð: Sviss  • höfuðborg  • gosbrunnar  • sundmenning  • þinghús  • Mönch  • Stockhorn  • Jungfrau  • Thun  • Eiger  • Bern