*

Veiði 10. júní 2017

Ágætis byrjun á laxveiðinni

Knattspyrnumaðurinn Gylfi Sigurðsson veiddi fyrsta laxinn í Norðurá en fyrsti lax sumarsins veiddist aftur á móti í Þjórsá.

Trausti Hafliðason

Laxveiðitímabilið er formlega hafið og það fyrir nokkru síðan. Venjulega hafa veiðimenn í Norðurá og Blöndu riðið á vaðið en í ár varð breyting á. Fyrstu laxar sumarsins veiddust við Urriðafoss í Þjórsá en Iceland Outfitters, sem er í eigu hjónanna Stefáns Sigurðssonar og Hörpu Hlínar Þórðardóttur, selur veiðileyfi þar.

Um árabil hefur fjölmiðlum verið leyft að fylgjast með opnun Norðurár. Þetta var gert þegar stjórn Stangaveiðifélags Reykjavíkur hafði ána á leigu og hafa Norðurárbændur haldið í hefðina eftir að þeir tóku við rekstrinum og réðu Einar Sigfússon til að sjá um sölu veiðileyfa og rekstur veiðihússins. Einar tók við árið 2014 og það ár opnuðu þeir Bjarni Benediktsson, þáverandi fjármálaráðherra og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þáverandi forsætisráðherra, ána. Árið 2015 opnuðu Bubbi Morthens og Björgvin Halldórsson Norðurá og í fyrra voru óperusöngvararnir Kristján Jóhannsson og Kristinn Sigmundsson fengnir til verksins.

Gylfi landaði tveimur

Að þessu sinni var Gylfi Sigurðsson, besti knattspyrnumaður landsins, fenginn til þess opna Norðurá. Veiði hófst seinna en venjulega og var það meðal annars vegna þess að um morguninn var ný og glæsileg viðbygging við veiðihúsið í Norðurá formlega opnuð.

Þá sást fljótlega að Gylfi er nokkuð vanur veiðimaður. Honum tókst prýðilega að veiða Brotið fyrir neðan Laxfoss með einhendu. Eftir að hafa kastað í 20 til 30 mínútur tók fyrsti laxinn. Sá var sterkur og teymdi Gylfa niður ána, alveg niður fyrir veiðistaðinn Almenning. Þegar komið var að löndun losað laxinn sig og synti sína leið út í á.

Var þá aftur þrammað upp að Broti og ekki leið að löngu þar til annar lax tók. Að þess sinni hafði Gylfi betur í slagnum og á land kom silfurbjört og lúsug hrygna sem mældist 87 sentímetrar. Gylfi ver feikilega ánægður með fiskinn og spurður hvort laxinn toppaði sigurinn á Englendingum á Evrópumótinu í Frakklandi síðasta sumar svaraði hann: „Já, algjörlega," en brosandi bætti hann síðan við „verð ég ekki að segja það."

Eftir þetta tók Gylfi sér smá hvíld og þá tóku glöggir menn eftir að því að lax var að sýna sig í Konungsstreng, sem er nokkuð nær Laxfossi en Brotið. Gylfi fór að sjálfsögðu af stað og ekki leið á löngu þar til lax tók. Var það gríðarlega falleg 92 sentímetra hrygna sem hann landaði við Skerin.

„Betra en ég þorði að vona"

Alls veiddust 16 laxar þennan fyrsta veiðidag í Norðurá, sem er nokkuð minna en í fyrra þegar 27 löxum var landað. Opnunarhollið var samtals með 33 laxa en til samanburðar veiddust 77 laxar í fyrra. Hafa ber í huga að byrjun veiðitímabilsins í fyrra var einstök víðast hvar um landið og stórlaxaveiðin fantagóð. Fyrir fram höfðu menn ekki búist við mikill stórlaxaveiði á þessu sumri en fyrir þá sem ekki vita þá gengur stórlaxinn fyrr upp í laxveiðiár en smálaxinn. Stórlax er lax sem dvalið hefur tvö ár í sjó áður en hann gengur upp á en smálax gengur upp eftir eitt ár í sjó.

„Mér líst mjög vel á þessa byrjun hún er betri en ég þorði að vona," segir Einar. „Við reiknuðum ekki með miklum stórlaxi en veiða og sleppa fyrirkomulagið, sem hefur verið í gangi í Norðurár um árabil, virðist vera að skila sér. Stærsti fiskurinn mældist 102 sentímetra en hann veiddist í Laugakvörn, að austanverðu. Þetta er með stærstu löxum sem veiðst hafa í ánni á síðustu árum."

Einar segir að af þeim 33 löxum sem veiddust í byrjun hafi fjórir verði smálaxar.

„Þeir voru allir á bilinu 66 til 69 sentímetrar, sem er óvenju vænn fiskur. Okkur finnst þetta vita á gott smálaxasumar."

29 laxar í Blöndu

Veiði hófst í Blöndu á mánudaginn og veiddust 15 laxar fyrsta daginn samanborið við 50 laxa fyrsta daginn í fyrra. Opnunarhollið lauk veiði á hádegi á miðvikudaginn og veiddust samtals 29 laxar en í fyrra veiddist 81 lax í opnuninni.

Árni Baldursson, eigandi Lax-á sem er með Blöndu á leigu, segir að fyrirfram hafi hann ekki búist við mikilli stórlaxaveiði. Þrátt fyrir það hafi veiðin nú verið mjög góð. Í gegnum árin hafi verið algengt að 12 til 24 laxar hafi veiðst í opnuninni í Blöndu.

„Þessi opnun í fyrra var svakaleg og það mun líklega aldrei aftur verða ámóta opnun," segir hann. „Laxarnir sem veiddust núna voru allir á bilinu 12 til 16 pund og mjög vel haldnir. Í fyrra var annarhver lax 18 pund sem er fáheyrt. Ég held að þetta verði mjög gott smálaxasumar og jafnvel ívið betra stórlaxasumar en margir bjuggust við því menn. Þetta lítur því allt saman ágætlega út."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.