*

Sport & peningar 13. ágúst 2020

Áhorfendaleysi nýtist útiliðum

Útilið í knattspyrnunni hafa fengið færri gul spjöld og unnið fleiri leiki eftir að boltinn byrjaði að rúlla eftir Covid-hlé.

Jóhann Óli Eiðsson

Gestalið í knattspyrnuheiminum hafa fengið færri gul spjöld í leikjum sínum eftir að fótboltinn byrjaði aftur að rúlla eftir hléið sem fylgdi kórónaveirufaraldrinum. Þetta kemur fram í nýbirtri rannsókn.

Sem kunnugt er voru keppnisíþróttir flestar settar á ís meðan Covid-19 faraldurinn var í hæstu hæðum. Þegar þær hófust á ný er það oftar en ekki án áhorfenda eða með mun færri áhorfendur en áður. Eðli málsins samkvæmt heyrist því talsvert minna í stuðningsmönnum í stúkunni.

Rannsakendur báru saman tölfræði úr tæplega 6500 knattspyrnuleikjum fyrir faraldurinn, þá með áhorfendum, og eftir faraldurinn. Af leikjunum voru 1500 leiknir án áhorfenda. Tölurnar voru sóttar í knattleiki í alls sautján löndum. Meðalfjöldi áhorfenda fyrir faraldur var rúmlega 13 þúsund fyrir faraldur en aðeins 200 eftir hann. Þar af voru engir áhorfendur í ellefu af löndunum sautján.

Fyrir faraldur lauk 43,8% leikja með sigri heimaliðsins en aðeins 41,2% eftir hann. Þá bentu niðurstöðurnar til þess að heimadómgæsla hefði minnkað þar sem engir áhorfendur hefðu verið á pöllunum til að setja pressu á dómarann. Rannsakendur setja þó þann fyrirvara að fleira geti haft áhrif á frammistöðu liðanna, til að mynda form leikmanna eftir pásuna og hve vel liðin hafa æft í fríinu.

„Niðurstöður rannsóknarinnar eru ekki aðeins mikilvægar fyrir íþróttaaðdáendur heldur einnig fyrir hagfræðina. Fáar niðurstöður eru til um það hvernig stuðningsmenn geta haft áhrif á úrslit þannig að það hagnist einum keppanda. Þetta bendir til þess að staðsetning viðburða geti verið mikilvægt og réttlætir það að lokaleikir keppna fari fram á hlutlausum völlum þar sem sætum er skipt jafnt milli stuðningsmanna liða,“ segir í greininni.