*

Ferðalög & útivist 27. mars 2013

Akureyri að fyllast fyrir páskana

Fólk streymir norður til Akureyrar enda spáin góð og fullt um að vera í bænum.

Lára Björg Björnsdóttir

„Það eru bara allir staðir fullir af fólki. Veðurspáin er mjög hagstæð, hér er logn og sól núna og þannig á veðrið að vera yfir páskana,” segir Hallgrímur Arason á Bautanum.

Hann segir alltaf vera nóg að gera á Bautanum: „Þetta er búið að vera gott og það er jöfn og þétt traffík hjá okkur. Fólk kemur hingað norður og nýtur veðursins og fjallsins og það njóta allir góðs af þessu.”

Hallgrímur segir þá á Bautanum ekki taka frá borð en það sé troðfullt hjá þeim alla dagana yfir páskana og að sjálfsögðu sé alltaf opið: „Þegar bærinn er fullur af ferðamönnum þá er bara sjálfsagt mál að hafa opið alla daga og öll kvöld.”

Á Hótel Kea eru öll fjölskylduherbergin bókuð en þó er eitthvað laust: „Ég er með eitthvað af lausum herbergjum og fín og hagstæð tilboð. Ég get alltaf á mig blómum bætt,” segir Hrafnhildur E. Karlsdóttir, hótelstjóri Hótel Kea.

Hún segir helling um að vera í bænum, tónleikar og aðrir menningarviðburðir: „Síðan er fjallið æðislegt núna og það er líka  stutt á önnur skíðasvæði, bæði á Dalvík og Siglufjörð. Veðrið er líka eins og það gerist best, bjart og örlítið frost.” 

Stikkorð: Akureyri  • Hótel Kea  • Páskar  • Bautinn