*

Jólin 13. nóvember 2016

Ákváðum að hafa hreindýrajól

Hjá hinum landskunna kokki Hrefnu Sætran fer minna fyrir hinu klassíska hangikjöti á jólum heldur ræður fjölbreytnin ríkjum.

Kokkurinn Hrefna Sætran, sem er áberandi í þáttunum Ísskápastríðið sem nýlega hófu göngu sína á Stöð 2, segist aldrei hafa það sama í matinn á aðfangadagskvöld.

„Þá erum við alltaf hjá tengdaforeldrum mínum, en við skiptumst á að elda þannig að þau þurfi ekki alltaf að elda fyrir okkur. Annað hvert ár elda ég og þau hitt árið, en það er aldrei það sama í matinn, það er alltaf eitthvað nýtt,“ segir Hrefna sem þegar er byrjuð að plana jólamáltíðina.

„Ég keypti hreindýr af veiðimanni, við gerðum það nokkur saman, ákváðum að hafa þetta hreindýrajól. Ég er þegar búin að fá dýrið í frystinn.“

Spurð hvort það sé venjan hjá henni að skipuleggja sig með svona miklum fyrirvara segir hún svo ekki vera, en í fyrra hafi hún keypt allt mjög snemma sem hafi verið mjög þægilegt. Hún er þegar farin að íhuga hvernig hún ætli að nota kjötið.

„Mér finnst alltaf best að léttsteikja. Þegar maður er með svona rosagott kjöt, sem er svona meyrt, þá hendi ég í það salti og pipar og steiki það upp úr smjöri, svo er meiri áhersla á meðlætið,“ segir Hrefna sem ætlar þannig að láta hreindýrinu að fá að njóta sín.

„Ég mun pottþétt gera einhverjar góðar kartöflur, en með svona kjöti finnst mér gott að gera gratín, ekki bara með rjóma heldur myndi ég eflaust nota einhvern voðafínan ost. Svo er rósakál vinsælt hjá okkur, en það er alltaf hægt að fá ferskt rósakál um jólin.

Það eru margir sem sjóða það, en ég er mjög hrifin af því að ofnbaka það, í einhverju ediki til dæmis með balsamikediki og púðursykri. Þá myndi ég kljúfa það í tvennt, velta því svo upp úr balsamik og sterku sinnepi með sætu maple sírópi, eða púðursykri eða einhverju þannig. Svo er bara að baka það við 170 gráður í 40 mínútur eða svo.“

Nánar má lesa um málið í Jólagjafahandbókinni sem fylgdi með Viðskiptablaðinu á fimmtudaginn. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.