*

Bílar 17. ágúst 2012

Ál léttir nýjan Range Rover um næstum því hálft tonn

Bílaframleiðendur hafa leitað ýmissa leiða til að spara eldsneyti. Nýr Range Rover eyðir 25% minna eldsneyti en forverinn.

Nýr Range Rover verður kynntur til sögunnar á bílasýningunni í París í næsta mánuði. Mikil áhersla hefur verið lögð á að létta bílinn og gera hann sparneytnari með góðum árangri. Yfirbygging bílsins verður nær öll úr áli auk þess sem álið verður einnig áberandi í undirvagni hans. Með notkun álsins verður bíllinn um 420 kílóum léttari en forverinn. Hlutfallslega munar 20% á þyngd bílanna. 

Fram kemur í tilkynningu frá Samáli að fyrir vikið verði nýi Range Roverinn mun sparneytnari en núverandi útgáfa. Bent er á að í frétt breska bílablaðsins AutoExpress komi fram að eldsneytiseyðsla hans verði um 25% minni en í núverandi bíl og CO2 losun minni en 200 g/km.

Samál bendir á að þessi mikla aukning á álnoktun í nýjum Range Rover sé í takt við þróunina á undanförnum árum. Aukin áhersla hefur verið lögð á að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda hjá bílaframleiðendum, og hafi helst verið horft til þess að létta bifreiðar og bæta eldsneytisnýtingu véla.

Hvert kíló af áli sem notað er í bifreið í stað stáls léttir hana um eitt kíló. Ál er að meðaltali nú um stundir um 150 kg í hverjum nýjum bíl en gert er ráð fyrir að það verði komið í 250 kg árið 2025. 

Stikkorð: Range Rover  • Samál