*

Viðtöl 1. júlí 2017

Aldrei farið á skemmtistað

Landsliðsmaðurinn Emil Hallfreðsson og eiginkona hans, Ása Reginsdóttir lifa heilsusamlegu lífi og leggja mikið upp úr því að borða góðan mat.

Kolbrún P. Helgadóttir

Bestu ár lífsins

Þegar Emil gekk til liðs við Udinese á síðasta ári lét hann hafa það eftir sér í viðtali að í Verona væri hann búinn að eiga bestu ár lífs síns. Þar hafi hann lært að rækta samband sitt við eiginkonu sína, fundið huggun eftir skyndilegt fráfall föður síns sem hann hefur talað opinskátt um áður. Einnig fæddust bæði börn þeirra Ásu og Emils í Verona svo að það er óhætt að segja að Verona þeim afar kær. Það má sjá og heyra á þeim Emil og Ásu að þau eru afar samrýmd. „Við gerum allt saman fyrir utan boltann og lifum í raun mjög öguðu lífi hvað varðar mataræði, svefn, heilsu og lífsstíl sem er partur af árangrinum. Við erum í þessu saman,“ segir Ása. Þau hafa mikla ástríðu fyrir góðum mat og segja það svolítið áhugamál þeirra að finna góða veitingastaði nálægt þeim stöðum sem þau ferðast í kringum boltann. „Þar má eiginlega segja að okkar djamm sé að fara út að borða góðan mat. Við höfum til dæmis aldrei farið á skemmtistað á Ítalíu. Matur er bara okkar partý,“segir Ása.

Vinátta varð að víninnflutningi

Einmitt þessi ástríða þeirra leiddi þau á slóðir tækifæra sem nú eru orðin að verkefni og viðskiptum. „Við fengum mikið af góðum gestum til okkar í Verona og löðum mikið upp úr því að fara með þá á fallega og góða staði þegar kom að mat og vínum. Við fundum þetta líka dásamlega fjölskyldufyrirtæki, Allegrini, þar sem móttökurnar og gestrisnin toppaði allt sem við höfðum áður upplifað.“ Allegrini er ítalskur vínframleiðandi sem hefur hlotið fjöldann allan af verðlaunum fyrir vín sín og var meðal annars valinn besti ítalski vínframleiðandinn árið 2016. Í kjölfar fjölda heimsókna með vini og vandamenn til Allegrini upphófst mikil vinátta á meðal Emils, Ásu og framleiðandans. „Ég hafði velt því fyrir mér að koma með þetta til Íslands þegar annar eigandi Fisk- og Grillmarkaðarins hafði samband við mig og spurði mig hvort ég vissi um góð vín fyrir staðinn. Það lá því beinast við að fara í málið og í dag seljum við Allegrine-vínin í ríkinu sem og í fríhöfninni og þau hafa hlotið frábærar viðtökur enda ótrúleg gæðavín á ferðinni sem Íslendingar geta nú notið.“

Færa Íslendingum ítölsk gæði

Hjónin láta ekki staðar numið hér og hafa einnig hafið ferli á því að flytja inn hágæða ólífuolíu frá Ítalíu. Framleiðandi Allegrini-vínanna kom til Íslands og varð orðlaus yfir því að hér fengist nánast engin alvöru ólífuolía. „Ef þú hugsar um heilsuna er ólífuolía það fyrsta sem þú vilt setja á diskinn þinn. Ítalir eru sem dæmi ein langlífasta þjóð heims. Í krafti þessara sömu tengsla getum við því fært Íslendingum ólífuolíu á góðu verði sem er með gæðavottun sem engin önnur olía á Íslandi ber.  Ólífuolíur á Íslandi er svo mikil munaðarvara að fólk á það til að gleyma að nota hana, svo mikið er hún spöruð til,“ segir Ása. Emil grípur orðið og bendir á að þau hjónin fari með um flösku á viku enda noti þau olíu á og með öllum mat. Mun olían fást á netinu til að byrja með þegar þar að kemur en eins og heyra má brenna þau mikið fyrir þessu verkefni sem og öðru sem þau taka sér fyrir hendur.

Hentar ekki lífsstílnum

Ása og Emil smökkuðu hvorugt vín er þau kynntust en Emil hefur lært listina að hætti Ítala að drekka góð vín á veru sinni þar. „Ef einhvers staðar á að læra að drekka góð vín, þá hvar annars staðar en á Ítalu?“ Ása segir í léttum tón að það sé mikilvægt að annað þeirra geti smakkað vínin þeirra til. Sjálf komi hún úr fjölskyldu þar sem nánast enginn smakki vín. Spurð hvort líf án skemmtanahalds sé ákvörðun sem þau hafi tekið  sérstaklega bendir Ása á Emil og segir hann einfaldlega aldrei hafa verið á þeim stað að langa að djamma. Ég hugsaði bara ekki um neitt annað en fótbolta þegar strákarnir voru að djamma hér áður. Ég skellti mér þá frekar á aukaæfingu og reyndi að verða betri á meðan. Ég var kannski svolítið manískur en ég ætlaði mér bara að verða góður í fótbolta og það hratt. Svo hentar þetta einfaldlega bara ekki mínum lífsstíl.“

Viðtalið við Emil og Ásu má lesa í heild sinni í nýjasta tölublaði Eftir vinnu, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.