*

Menning & listir 9. janúar 2020

Aldrei fleiri alþjóðlegar ráðstefnur

Í Hörpu á síðasta ári voru 28 alþjóðlegar ráðstefnur, hátt í 2.200 viðburðir þar af 449 tónleikar með nærri 200 þúsund gesti.

Óhætt er að segja að árið 2019 hafi verið metár í Hörpu en 2155 viðburðir af öllum stærðum og gerðum voru haldnir í húsinu.  Þar af voru 449 tónleikar.  Alls voru 191.319 miðar prentaðir út í miðasölunni.

Í Hörpu voru haldnir 411 fundir, ráðstefnur, veislur og móttökur á liðnu ári. Þar af voru 28 alþjóðlegar ráðstefnur. Aldrei áður hafa svo margar alþjóðlegar ráðstefnur verið haldnar í húsinu. Komnar eru margar bókanir fyrir þetta ár og næsta.

Skoðunarferðir undir leiðsögn, um króka og kima Hörpu, voru 981 talsins. Flestar voru á ensku fyrir ferðamenn en einnig var efnt til sérleiðsagnar fyrir íslenska hópa og fyrir börn.

Glæsilegri fjölskyldudagskrá var hleypt af stokkunum í lok sumars, en 144 viðburðir fyrir börn og fjölskyldufólk fóru fram í húsinu. Það eru um hundrað fleiri fjölskylduviðburðir en voru árið 2018.

Hellt var upp á 350.000 kaffibolla á árinu. Þeir verða væntanlega ekki færri á þessu ári enda pakkfullt og spennandi ár framundan

Stikkorð: Harpa  • tónleikar  • ráðstefnur