*

Sport & peningar 8. júní 2019

Aldrei of seint að byrja

Að byrja í golfi þarf hvorki að vera flókið né dýrt. Að sögn golfkennara skiptir miklu máli í byrjun að fá leiðsögn við undirstöðuatriði leiksins.

Ástgeir Ólafsson

Þegar sólin skín í heiði eins og hún hefur gert á suðvesturhorni landsins síðustu misseri þarf ekki að koma á óvart að margir fái þá flugu í höfuðið að byrja í golfi enda er fátt skemmtilegra en að eyða sólríkum degi á golfvellinum í góðum félagsskap. Að byrja í golfi getur þó virst flókið í fyrstu auk þess sem það getur litið út fyrir að vera kostnaðarsamt. Það þarf þó hvorki að vera flókið né dýrt. Hér verður stiklað á stóru yfir þá þætti sem hafa þarf í huga þegar byrjað er í golfi.

Velja búnað sem hentar

Til að byrja með þarf að  að verða sér út um þann búnað sem þarf til. Hvort sem það eru kylfur eða fatnaður er gott að hafa í huga að búnaðurinn ætti að auðvelda kylfingum leikinn en ekki að gera þeim erfiðara fyrir. Leyfilegt er að vera með 14 kylfur í pokanum en hálf sett sem inniheldur sem dæmi driver, blendingskylfu (hybrid), 6-járn, 8-járn, fleygjárn auk pútters getur verið alveg nóg til að koma sér af stað. Bæði er hægt að kaupa notað og nýtt en það er mikilvægt sama á hvaða getustigi kylfingur er að hann sé með kylfur sem henti honum. Í byrjun skiptir því máli að sköftin á kylfunum séu ekki of stíf og að hausarnir séu ekki of þungir. Flestar golfbúðir selja svokölluð byrjendasett sem eru hönnuð fyrir byrjendur og einkennir það kylfurnar að þær eiga frekar að vera til þess að hjálpa kylfingnum heldur en að gera honum erfitt fyrir.

Þó að fyrir suma skipti það miklu máli að líta vel út á vellinum er ekki nauðsynlegt að verða sér út um sérstakan golffatnað til að byrja með. Útivistarfatnaður og íþróttaskór, helst með grófum botni hentar vel í byrjun. Það sem skiptir mestu máli varðandi fatnað er að hann sé þægilegur og hefti kylfinginn ekki í sveiflunni. Gallabuxur eru reyndar bannaðar á mörgum golfvöllum en auk þess verður seint sagt að þær séu þægilegur fatnaður til golfleiks.

Fái kennslu í byrjun

Golf er tæknileg íþrótt og því skipta undirstöðuatriðin miklu máli hvort sem um er að ræða byrjanda eða kylfing á hæsta getustigi. Það að læra golf upp á eigin spýtur getur reynst þrautin þyngri og gæti hugsanlega flækt málin í stað þess að einfalda þau. Blaðamaður ræddi því við Ragnhildi Sigurðardóttur, PGA golfkennara og fjórfaldan Íslandsmeistara í golfi, um þau atriði sem skipta máli þegar fólk er að taka fyrstu skrefin. „Í fyrsta lagi er gott að taka tíma hjá golfkennara og læra undirstöðuatriðin. Það er lykillinn að því að geta gert þetta almennilega,“ segir Ragnhildur. „Bara það að halda rétt og standa rétt lætur hlutina gerast meira sjálfkrafa. Ef undirstöðuatriðin eru ekki rétt er meiri hætta á meiðslum auk þess sem það verður einfaldlega ekki jafn gaman þar sem framfarirnar verða ekki jafn örar. Að komast út á völl að leika, helst eins fljótt og hægt er er mikilvægt til að skilja tilganginn með leiknum. Þá er gott að hafa einhvern góðan með sér til halds og trausts, sem kann eitthvað í golfi. Styttri vellir eru ákjósanlegir fyrstu skrefin, þar er oft minna álag og vel á sig leggjandi að fara jafnvel aðeins út fyrir höfuðborgarsvæðið. Leikhraðinn er einnig mikilvægur og er ýmislegt hægt að gera til þess að láta hlutina ganga fljótt og vel fyrir sig þó að höggin séu mörg. Aðalatriðið í þessu er samt að láta sér líða vel og hafa gaman. Ekki hafa of miklar áhyggjur og vera bara maður sjálfur því það er langauðveldast.“

Þegar fólk byrjar í golfi og vill leita til golfkennara er bæði hægt að fá einkatíma hjá kennara og fara á byrjendanámskeið. Að sögn Ragnhildar geta námskeið oft hentað betur í byrjun. „Námskeið eru mjög sniðug þar sem þar er félagsskapur til staðar og þar getur stofnast til vinasambanda sem geta leitt til stofnunar spilahópa. Það er jafnvel enn þá skemmtilegra ef vinir fara saman á námskeið.  Námskeið eru að mörgu leyti betri en stakir tímar því það er hætta á að ástundunin verði ekki eins góð þar sem hvatningin er meiri í hópi. Hraðskreiðasta leiðin við að byrja í golfi og ná fljótt tökum á íþróttinni er svo að fara í golfskóla erlendis að vori eða hausti ef fólk hefur tök á því. Þar er fólk í þjálfun sex daga í röð og er ekki að hugsa um neitt annað en golf. Byrjendur koma spilandi heim úr þeim ferðum og geta farið beint út á völl.“ 

Nánar er fjallað um málið í Golf, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.