*

Veiði 17. janúar 2015

Aldrei upplifað neitt jafn skemmtilegt

Fjórir félagar veiddu framandi fisktegundir á flugu við strönd Mexíkó. Settu þeir meðal annars í hákarl og barrakúdu.

Trausti Hafliðason

Kristján Benediktsson, framkvæmdastjóri Iceland Angling Travel (IAT), fór í ógleymanlega veiðiferð til Mexíkó fyrir skömmu. Kristján, sem þekktastur er undir gælunafninu Stjáni Ben, segir að áhuginn fyrir því að veiða í Mexíkó hafi kviknað árið 2011 þegar alþjóðlega fluguveiðikvikmyndahátíðin RISE var í fyrsta skiptið haldin hérlendis. Ein af myndunum á hátíðinni var veiðimynd frá Mexíkó. „Þessi mynd fór aldrei úr huga mér og ég hafði alltaf hugsað að þetta yrði ég að prófa,“ segir Kristján.

Árin liðu en loks í fyrra ákvað Kristján að láta slag standa. Þá hafði hann hitt erlendan veiðimann í Húseyjarkvísl. Sá býður upp á fluguveiði í Ascension-flóa við Punta Allen, sem er lítill bær á austanverðum Yucatán-skaga í Mexíkó. Í nóvember fór Kristján til Mexíkó ásamt þremur öðrum veiðimönnum, þeim Valgarði Ragnarssyni, Gunnari Baldri Norðdahl og Þorsteini Stefánssyni. „Þetta var algjörlega geðveikt, það er bara þannig,“ segir Kristján. „Ég hef bara aldrei upplifað neitt jafn skemmtilegt. Þetta er eðlilega allt öðruvísi en veiðin hér heima. Maður stendur úti í sjó eða á báti með fluguveiðistöng í glampandi sól og framandi náttúru. Mér leið svolítið eins og þegar ég var að byrja að veiða hérna heima – spennan var óstjórnleg. Bara fyrsta daginn fengum við fjórir vel yfir hundrað fiska.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.