*

Tölvur & tækni 9. október 2014

Algjör vinnuhestur frá LG

Nýjasti snjallsíminn frá LG er líkastur verðlaunahesti. Hann er fallegur á að líta og sprettir úr spori. Viðskiptablaðið prófaði græjuna.

Jón Aðalsteinn Bergsvein
 - jon@vb.is

Það var eitthvað einstakt við nýjasta snjallsímann frá LG um leið og pakkinn var tekinn upp og síminn handleikinn. Þetta er fallega hannaður gripur, eins og talsvert sé í hann lagt. Og það er raunin. LG G3 er ekki aðeins fallegur á að líta og fer vel í hendi; töluverður kraftur er undir húddinu.

Símarnir frá LG, sem heildverslunin Actus er með umboð fyrir, hafa almennt fengið fína dóma í gegnum tíðina. Eigendur LG G2, sem kom á markað í fyrra, eru almennt nokkuð ánægðir með sína síma. Þeir sem hafa uppfært tækjakostinn eru nokkuð glaðari. Enda ekki að ástæðulausu að helstu tæknispekúlantar í hinum vestræna heimi hafa sett hann á stall með bestu snjallsímum ársins.

LG G3 keyrir á fjórkjarna 2,5 GHz örgjörva og með 2 GB RAM sem skilar mikilli vinnslugetu. Krafturinn kemur í ljós um leið og kveikt er á símanum í fyrsta sinn. Ekkert dregur úr hraðanum þegar á líður. Orkan kemur skýrt fram þegar síminn er tengdur 4G-gagnaflutningsnetinu. Þar er sem síminn sé tengdur staðarneti (WiFi) og er hann fljótur að skjótast um netið. Þá er í símanum 16 GB minni.

Snörp græja

Síminn er sömuleiðis fljótur að taka við sér þótt hann hafi legið óhreyfður um skeið og snarpur að opna þau forrit sem hann á að vinna með. Ýmsar flýtileiðir á skjáhvílu símans einfalda alla vinnslu fyrir notanda til muna. Notendaviðmótið er með þeim betri sem sjást en nefna má sem dæmi að aðeins þarf að strjúka létt yfir skjá símans þegar hann hefur ekki verið notaður lengi til að vekja hann aftur. Þeir sem vilja koma í veg fyrir að óprúttnir komist yfir gögn í símanum geta læst honum á tiltölulega einfaldan hátt. Boðið er upp á þann möguleika þegar síminn er ræstur í fyrsta sinn.

Skjár LG G3 er sambærilegur og aðrir símar í stærri kantinum í dag (Samsung S5 og aðrar græjur) eða 5,5 tommur. Hann styður 1440 x 2560 Quad háskerpuupplausn sem er með því hæsta í dag og skilar skjárinn afbragðsmyndgæðum við öll skilyrði.

Frábær myndavél

Myndavélin í LG G3 er upp á 13 MP sem er álíka mikið og má sjá í öðrum símum af svipuðu kalíberi. Eins og flestir vita skiptir stærðin og dílafjöldinn ekki öllu máli enda getur stærri myndavél skilað álíka góðum myndum og þær með undir 10 MP (iPhone 5s sem er með 8 MP upplausn og HTC One (M8) sem er með 5 MP upplausn er ágætt dæmi en þeir báðir skila frábærum myndum). Myndavélin í LG G3 skilar framúrskarandi myndum með skýrum og tærum litum við góð birtuskilyrði. Þar er LG G3 á svipuðu róli og Samsung S5, sem er með 16 MP myndavél. Þegar skyggja tekur minnka hins vegar gæði myndanna og eiga þær til að verða kornóttar. Það er ekkert einsdæmi enda gildir það sama um myndir úr hinum símunum sem nefndir voru hér áðan. Þeir einu símar sem eitthvað geta í rökkrinu eru myndavélar í dýrari símum úr Lumia-seríunni frá Nokia. Eins og blaðamaður Viðskiptablaðsins komst að raun um á dögunum er ekki nóg að hafa góða myndavél í símanum. Þessu er ekki að skipta í tilviki LG G3. Þvert á móti. Þar fara saman gæði og kraftur.

Skemmtileg viðbót

Þegar blaðamaður Viðskiptablaðsins fékk LG G3 hjá Actus til prófunar fylgdu ýmsir hlutir með, s.s. mismunandi bakhliðar sem einfalt er að skipta um. Skemmtilegasti fylgihluturinn er hins vegar falleg hlíf (LG G3 Quick Circle) utan um símann. Hlífin, sem er svipuð þeim sem fáanlegar fyrir LG G2, er með gati ofarlega á skjá símans. Þegar símanum er „lokað“ fer skjárinn strax í hvíld. Í gatinu birtist svo samstundis klukka með vísum. Í gegnum gatið er svo hægt að gera ýmislegt, s.s. hringja, taka myndir, skoða tölvupóstur og fleira til.

Þeir sem vilja kröftugt og frábært tæki þurfa auðvitað að borga fyrir gæðinginn. LG G3 kostar 110 þúsund krónur hjá Vodafone. Það er sama verð og fyrir Samsung S5 en 10 þúsund krónum meira en fyrir iPhone 5s. Miðað við það sem hefur komið fram má gera ráð fyrir að LG G3 verði eitthvað ódýrari en iPhone 6 þegar hann kemur í búðir. Þeir sem vilja bæta hlífinni við þurfa svo að bæta um 8.000 krónum við pakkann.

Myndir teknar á símann:


 

Stikkorð: LG G3