*

Bílar 19. nóvember 2017

Alin upp í torfærum í Rússajeppa

Eva Dögg Sigurgeirsdóttir, eigandi tiska.is, er mikil áhugakona um bíla sem hún segir að sé hluti af tískuáhuga sínum.

Róbert Róbertsson

Eva Dögg Sigurgeirsdóttir, eigandi tiska.is, er mikil áhugakona um bíla sem hún segir að sé hluti af tískuáhuga sínum. Eva Dögg selur lúxus snyrtivörur eða húðmeðferðir sem kallast All Sins 18k og hafa vakið mikla athygli erlendis. Eva Dögg er einnig að vinna að mörgum ólíkum verkefnum með samstarfskonu sinni þar sem þær vinna að því að aðstoða fyrirtæki að markaðssetja sig bæði á veraldarvefnum og annars staðar.

Hver er uppáhaldsbíllinn sem þú hefur ekið?

„Ég er algjör Land Rover aðdáandi. Það er kannski af því að afi minn átti alltaf Land Rover jeppa. Við erum búin að eiga tvo Land Rover jeppa síðastliðin ár og ég verð að segja að nýi bíllinn Land Rover Discovery 5 er svona í uppáhaldi í dag. Alveg geggjað að keyra hann að mínu mati, liggur vel og svo er hann rúmgóður og pláss fyrir marga. Ég átti Mercedes-Benz CLA í í tvö ár sem var sjúklega gaman að keyra, Ég þoldi bara ekki ruglið á hjólbarðaviðvörunum. Núna er ég komin á BMW sem er að hluta til rafmagns, eða Plug-in Hybrid, og ég fíla það í botn. Hann er ekki jafn sportlegur og Bensinn en þægilegur og sparneytinn. Næst fæ ég mér 100% rafmagnsbíl.“

Hver er eftirminnilegasta bílferðin?

„Ég á nú nokkrar eftirminnilegar að baki, en ég held kannski að eftirminnilegasta bílferðin tengist eftirminnilegasta bílnum mínum en þetta var bíll sem ég keypti mér þegar ég var við námi í Kaliforníu. Þetta var Buick Regal Limited edition tveggja dyra árgerð 1984. Sætin voru að sjálfsögðu pluss og mælaborðið ansi eftirminnilegt. Nema hvað að bílnum var stolið og ég held að bílferðin þegar okkur var sagt að hann væri fundinn sé ansi eftirminnileg. Þegar við fengum bílinn í hendurnar þá var búið að strípa hann alveg, taka felgur, spegla, sæti, innréttingar og mælaborð. Það var búið að setja gamlan plastkassa sem bílstjórasæti og eitthvert eldgamalt stýri. Nú svo á ég eins og margir prakkara bílferðir að baki. Einu sinni vorum við vinkona mín, þá tæplega tvítugar að aldri, á rúntinum og ákváðum að festa gervihandlegg aftan í skottið og keyrðum þannig um bæinn. Ég gleymi seint aumingja konunni sem hrökk svo í kút þegar hún sá handlegginn dinglandi út úr skottinu þar sem ég hafði lagt bílnum við blómabúð í Faxafeni. Ég var hræddust um að hún hefði fengið hjartaáfall en ég þorði alls ekki út úr versluninni. Bið hana hér með formlega afsökunar á þessum hrekk.“

Hver er besti bílstjóri sem þú þekkir (fyrir utan sjálfa þig)?

„Mér líður vel í bíl með manninum mínum, Bjarna Ákasyni, því hann er varkár. Ég er meiri gunga en hann í framúrakstri og slíku og treysti honum fullkomlega sem bílstjóra, en hann er eina manneskjan sem ég get sofið róleg í bíl hjá á langferðum.“ En versti bílstjórinn? Ég þekki nú ansi marga, en ég nefni engin nöfn. Gleymi samt seint ferð minni frá San José til Los Angeles seint á síðustu öld, en þá var stjúpfaðir minn, Gísli Rúnar Jónsson, í öðrum bíl og var stöðvaður vegna hægaksturs. Þá var hann sem sagt að spila Trivial Persuit við farþegana og gleymdi sér aðeins, lögreglunni til mikillar óánægju.”

Hvað hlustarðu helst á í bílnum?

„Ég elska nýju tæknina, engir CD diskar, engar spólur, bara bluetooth og Spotify. Tónlistin þarf ekki einu sinni að taka pláss af minninu í símanum. Ég á það til að detta í ELO sessjónir en ég er mikið oldies fan líka og er með nokkra örugga lagalista sem koma mér í rétta skapið.”

Hvort myndirðu vilja keppa í kappakstri eða torfæru?

 „Ég elska hraðskreiða bíla en ég myndi kjósa torfæru, þannig hef ég meiri stjórn á aðstæðum sem sagt minni hraði. Ég er alin upp afturí í Rússajeppa og því vön torfærum á hálendinu.“

Hver er draumabíllinn?

„Tesla engin spurning. En svo er gott að eiga Land Rover á kantinum þegar maður fer í veiði og í sveitina.