*

Menning & listir 28. janúar 2015

Allir geta fjárfest í myndlist

Þær Aldís Snorradóttir og Elísabet Alma Svendsen munu stýra Hverfisgalleríi ásamt Marteini Tausen.

Kári Finnsson

Fyrir tveimur vikum tilkynntu listagalleríin Þoka og Hverfisgallerí að þau hefðu sameinast undir nafni Hverfisgallerís. Þá munu Aldís Snorradóttir, stofnandi Þoku, Elísabet Alma Svendsen og Marteinn Tausen, sem hefur verið framkvæmdastjóri Hverfisgallerís, stýra sameinuðu galleríi. Galleríin voru bæði stofnuð fyrir um tveimur árum en Þoka var lengst af í kjallara hönnunarverslunarinnar Hríms við Laugaveg.

Eftir að galleríið missti húsnæði sitt síðastliðið haust var tekin ákvörðun um að opna það aftur í nýju húsnæði við Vesturgötu og stefndu þær Aldís og Elísabet að því að opna það í lok þessa mánaðar. Á sama tíma voru eigendur Hverfisgallerís að hugleiða breytingar í galleríinu og hófu í kjölfarið viðræður við Þoku um sameiningu þeirra tveggja.

„Við vorum búnar að gera ýmiss konar áætlanir með Þoku og vorum búnar að undirbúa ýmsar aðgerðir til að hleypa meira lífi inn í galleríið en kannski tíðkast almennt,“ segir Aldís. „Við vildum hafa þetta lifandi, þannig að fólk yrði ekki hrætt við að koma í rýmið. Fólki finnst því oft verða fyrir stífu viðmóti þegar það kemur inn í listagallerí. Við vildum hafa viðmótið þannig að öllum liði eins og þau væru velkomin en um leið að halda því mjög fagmannlegu. Okkur fannst sameiningin mjög spennandi vegna þess að við fáum að halda í það sem við lögðum upp með,“ bætir Elísabet við.

Getur aðeins afmarkaður hópur fjárfest í myndlist eða geta allir gert það?

„Jú, það er algjörlega á allra færi. Sérstaklega þegar verk eftir yngri listamenn koma inn í spilið sem eru náttúrlega ódýrari en verk hinna ráðsettu. Núna er þetta allur skalinn og því eru ódýrari verk í boði líka. Auðvitað er þetta munaðarvara í eðli sínu. En ef fólk er tilbúið að kaupa sér sófa á 400.000 eða kápu á 70.000 þá ætti fólk hæglega að geta keypt myndlist líka,“ segir Elísabet.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Hverfisgallerí