*

Ferðalög & útivist 6. mars 2015

Allir geta verið pílagrímar

Tugþúsundir manna ganga Jakobsveginn ár hvert. Fararstjórinn Ása Marin Hafsteinsdóttir kláraði að ganga veginn síðastliðið sumar.

Eydís Brynjarsdóttir

Jakobsvegurinn eða vegur heilags Jakobs er ansi merkilegur að því leyti að vegurinn er þekktasta pílagrímaleiðin í Evrópu og ganga hana tugir þúsunda manna ár hvert, ýmist til sér skemmtunar eða syndaaflausna. Jakobsvegurinn er tæplega 780 kílómetra langur og frá liggur frá Pýreneafjöllum Frakklandsmegin yfir til Santiago de Compostela á Spáni. Ása Marin Hafsteinsdóttir, sem er fararstjóri, gekk Jakobsveginn sumarið 2014. Eftir vinnu leit inn í kaffi hjá Ásu Marin í huggulegri íbúð hennar í Hafnarfirði til að forvitnast meira um þessa löngu göngu.

„Ég var búin að vera með það í maganum mjög lengi að fara Jakobsveginn, alveg síðan ég var að vinna á Farfuglaheimilinu í Laugardalnum 2005,“ segir Ása. „Þar var ég að vinna með strák sem hafði farið veginn nokkrum sinnum. Ég sá svo að þetta var gerlegt þegar ég sá heimildarmynd um Thor Vilhjálmsson brölta þetta á gamals aldri! Þá hafði ég trú á að þetta væri yfirstíganlegt verkefni og ákvað í framhaldi af því að drífa mig. Í raun byrjaði gangan vegna forvitni, þá fórum við 6 konur saman sumarið 2013 og gengum fyrstu 110 kíló­ metrana af stígnum og fórum svo heim. Sumarið 2014 hélt ég svo áfram að ganga ásamt Huldu Magnúsdóttur vinkonu minni og byrjuðum við þar sem við enduðum 2013 og gengum saman til Burgos. Þar skildu leiðir og ég hélt áfram ein til Santiago de Compostela.“

Undirbúningur, farangur og elja til að ganga

Hvernig undirbjóstu þig fyrir gönguna og hvað finnst þér lykilatriði að hafa meðferðis?

„Fyrra árið má segja að ég hafi verið að prófa að fara stíginn, ég er til dæmis ekki fjallageit og ég er ekki að fara að ganga sjö tinda þar sem það er ekki mitt áhugamál. Þess vegna var ég ekki viss hvort mér þætti þetta skemmtilegt og þar af leiðandi fór ég fyrra árið í þessum hóp til að sjá hvort þetta væri eitthvað sem ég gæti hugsað mér og hvort ég myndi vilja verja næsta sumarfríi í að ganga veginn. Ég er nokkuð viss um það að það sé til fólk sem fer af stað en finnst þetta svo í raun leiðinlegt og vill hætta göngunni. Mikilvægast er að eiga góða gönguskó, t.d. utanvegar hlaupaskó, þeir eru léttir með grófan sóla og anda vel sem er mjög góður kostur vegna þess að hitinn getur verið mikill. Lítil vasabók af Jakobsveginum er lykilatriði, bæði til að geta séð vegalengdir á milli bæja sem og hækkun/lækkun á vegi.“

Hvernig myndir þú lýsa göngunni og veginum í heild? Er þetta erfið ganga?

„Ég myndi segja að vegurinn væri þrískiptur. Fyrsti hlutinn byrjar við Pýreneafjöllin eða í fyrsta spænska bænum við landamærin og sá hluti reynir á líkamann eins og stoðkerfið, þ.e. það koma verkir í mjaðmir og hné, flestir fá blöðrur, nuddsár og fleira. Þegar þú ert kominn til Burgos og á leið til León sem eru ca. 10-14 dagar, þá reynir mjög á andlegu hliðina því gangan er í raun ekkert skemmtileg því þar er flatneskja og ekkert sérstaklega falleg náttúra og lengra á milli bæja. Frá León og yfir til Santiago, eða á þriðja hlutanum, ertu búinn með allt erfiði, bæði það líkamlega og andlega og einnig nennuna og þá er kominn tími til að njóta. Leiðin er falleg, náttúran fjölbreytt og þú gengur í gegnum marga litla keltneska bæi.

Ef fólk er í þeim hugleiðingum að ganga bara hluta úr stígnum þá myndi ég ráðleggja því að taka t.d. tvær vikur og fara frá León til Santiago. Heilt á litið eru þetta rúmar fimm vikur ef miðað er við að ganga 22-25 km á dag. Það getur verið mjög misjafnt hvað fólk vill fá út úr göngunni, ég hitti t.d. einn sem gekk 35 km á dag og ætlaði að taka styttri heildartíma til að klára stíginn þannig að hann bæði hljóp og gekk hana. Varðandi erfiðleika göngunnar þá er hún mjög misjöfn, stundum er undirlagið eins og moldarstígur, stundum steinvölur, stundum gengur maður meðfram þjóðvegum og stundum upp og niður hæðir. Erfiðast er þegar undirlagið er lausamöl og maður gengur niður bratta, þar er auðvelt að renna til en gangan sem slík er ekki erfið. Það eru kannski nokkrir dagar sem eru merktir rauð­ ir sem þýðir erfitt en annars eru þeir grænir eða appelsínugulir sem merkir auðveld eða miðlungs þungir,“ segir hún en bætir svo við hlæjandi að hver sem er, í hvaða formi sem er getur gengið þetta svo lengi sem viðkomandi getur sett annan fótinn fram fyrir hinn og haft elju til að gera það ofboðslega oft í marga daga.

Nánar er fjallað um málið í Eftir vinnu, sem fylgir Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.