*

Tölvur & tækni 16. maí 2012

Tækninördar heimsins dást að forriti frá Kópavogi

Apple vill kíkja í græjuboxið hjá Pratik Kumar. Hann bjó til forrit handa eigendum iPad-tölva sem vilja spila tölvuleiki í sjónvarpi.

Jón Aðalsteinn Bergsvein
 - jon@vb.is

„Ég hef aldrei séð svona mikinn áhuga á neinu forriti frá mér. Og nú er menn frá Apple farnir að kanna hvort ég geti hjálpað þeim,“ segir Pratik Kumar sem rekur hugbúnaðarfyrirtækið App Dynamic í Kópavogi. Pratik hefur búið til forrit sem gerir þeim kleift sem eiga þráðlaus tæki og tól frá Apple að spila leiki í iPad-tölvum, iPhone-farsímum og iPod Touch-græjum og streyma þeim í gegnum tölvur sem tengdar við sjónvarp. Bæði er hægt að nota PC-tölvur og Apple-tölvur. Og það sem meira er: Tveir og fleiri geta keppt sín á milli á sama tíma í leikjum á skjánum.

Hugbúnaðurinn sem heitir AirServer er af svipaðri gerð og Pratik hefur áður búið til fyrir Apple-tæki, svo sem Remote HD og Air Frame. 

Pratik hefur í gegnum tíðina selt vörur sínar í gegnum netverslun Apple, iTunes. Þær hafa síðasta árið notið mikilla vinsælda, ekki síst hugbúnaður sem gerir notendum kleift að streyma ljósmyndum og kvikmyndum af þráðlausu tækjunum í gegnum Apple TV yfir í sjónvarp. Öðru máli gegnir hins vegar um nýjasta forritið. Pratik hefur skipt Apple TV-tækinu út fyrir tölvur sem tengdar eru við sjónvarp auk þess að selja hugbúnaðinn sjálfur í gegnum vefsíðu AirServer.

„Það eru miklu meiri möguleikar fólgnir í því að gera þetta sjálfur með þessum hætti,“ segir Pratik í samtali við Viðskiptablaðið en bendir jafnframt á að mjög snúið sé að koma myndum úr smátækjum Apple yfir á stórt flatskjársjónvarp eða sýningartjald. Vandinn liggur í því að myndin í græjunum er lítil og verður mjög gróf og léleg þegar hún er komin yfir á stærri flöt. Með þeirri tækni sem Pratik beitir er myndskerpubúnaður notaður til að bæta gæði úr hverri einustu færslu sem streymir úr þráðlausu græjunni áður en henni er varpað á skjáinn.

„Þetta er mjög flókin hugbúnaðarvinna en hefur skilað sér í því að nú er myndin á skjá eða tjaldi orðin betri en í smátækinu,“ segir hann.

Tækninördar eru í skýjunum

Nýja forritið er að gera allt vitlaust, ef svo má að orði komast. Nú er búið að skrifa 100 þúsund Twitter-færslur um AirServer-búnaðinn, skoða myndband um virkni hans 14 þúsund sinnum og svo má lengi telja. Þá eru erlendir tækniskríbentar í skýjunum en þeir segja hugbúnaðinn breyta þráðlausum tólum Apple í leikjatölvur. Umfjallanir hafa ekki birst í neinum smásneplum heldur í blöðum á borð við Wired, The Wall Street Journal, MacWorld og fleirum álíka risablöðum.

Hugbúnaðurinn hefur verið keyptur fyrir skóla og er hann notaður í háskólum á borð við Stanford, MIT og UCLA í Bandaríkjunum auk þess sem tæknirisar á borð við Cisco, SAP og VMWare nota hann. 

Pratik segir hugbúnaðinn einkar hentugan fyrir kennara. „Það eru svo margir komnir með iPad-tölvur. Nú þegar tölvur í kennslustofum eru yfirleitt tengdar við sjónvarp eða myndvarpa er einfalt mál að hlaða niður hugbúnaðinum og tengja spjaldtölvuna við hann til að varpa upp mynd af henni á skjá.“ 

Samsung leitar til Pratiks

Hugbúnaður Pratiks hefur vakið heimsathygli en forsvarsmenn Samsung í Suður-Kóreu leituðu eftir samstarfi í byrjun árs við þróun á forritum sem getur tengt saman snjallsíma og sjónvarp frá Samsung. 

Pratik segir að stjórnendur Apple fylgist grannt með vegferð AirServer og hafi hugbúnaðurinn verið kynntur innan bandarísku stjórnsýslunnar. 

Hér má skoða myndband sem sýnir hvernig hugbúnaðurinn AirServer virkar.

Stikkorð: App Dynamic  • Pratik Kumar  • AirServer