*

Matur og vín 22. mars 2013

Allt að 35% verðmunur á páskaeggjum

Bónus var oftast með lægsta verð á páskaeggjum í verðlagskönnun ASÍ.

Algengast er að 20-30% verðmunur sé á hæsta og lægsta verði á páskaeggjum milli matvöruverslana að því er fram kemur í nýrri verðkönnun sem Verðlagseftirlit ASÍ gerði í verslunum á höfuðborgarsvæðinu í vikunni. Mestur var verðmunurinn 35%. Bónus var oftast með lægsta verðið á þeim eggjum sem skoðuð voru en Samkaup-Úrval og Iceland voru oftast með hæsta verðið. Flest páskaeggin í könnuninni voru fáanleg í Iceland og Fjarðarkaupum en fæst í Kosti og Nóatúni.

Bónus var oftast með lægsta verðið í könnuninni eða á 19 af þeim 27 tegundum páskaeggja sem kannað var verð á. Af þeim 18 tegundum eggja í könnuninni sem unnt var að bera saman verð á milli Bónuss og Krónunnar reyndist einungis 1 krónu verðmunur á verslunum tveimur í 11 tilvikum og innan við 10 króna verðmunur í 15 tilvikum.

Hæsta verðið í könnuninni var oftast í Samkaupum-Úrvali eða á 10 páskaeggjum af 27 og í Iceland sem reyndist 8 sinnum með hæsta verðið.

Stikkorð: Páskaegg  • Páskar