*

Veiði 29. júlí 2012

Allt að verða vitlaust!

Betra er að segja hlutina eins og þeir eru en að ýta undir óraunhæfar væntingar.

Pálmi Gunnarsson

Er allt að verða vitlaust hjá ykkur? Ég er með félaga minn í símanum og hann er að veiða. Af hverju spyrðu? Ég rétt heyri í vininum í gegnum brak og bresti í símanum, greinilegt að góðviðri undanfarinna vikna er á undanhaldi. Það stendur í blöðunum, svara ég. Ekki verð ég nú var við það. Við erum búnir að kroppa upp nokkra laxa á mörgum dögum og erum með toppstöngina. Þetta hlýtur að vera önnur á! Við kveðjumst og ég held áfram að rýna í blöðin.

Ég ætla engum það að ljúga til um ástandið á veiðislóð heldur tel ég fréttaflutning oft vera á svolitlum „nú fer þetta allt að lagast, það er stórstraumur um næstu helgi“ nótunum. Nokkrir fiskar eiga það stundum til að verða að risagöngu í fréttum. Á þetta sérstaklega við um fréttir af laxveiðiám. Þetta er að vissu leyti skiljanlegt, það er betra að færa veiðimönnum jákvæðar fréttir en neikvæðar þegar þeir eru að leggja í hann. Þeir eru jú búnir að eyða miklum fjármunum í kaup á veiðileyfum og þjónustu og yfirkomnir af eftirvæntingu. Ég er hins vegar á því að betra sé að segja hlutina eins og þeir eru. Ef allt er í toppstandi þá eru það upplýsingar sem lyfta manni á kreik og ýta enn frekar undir eftirvæntinguna en ef aðstæður eru erfiðar býr maður sig undir þær, setur sig í þann gírinn og mætir mun betur undirbúinn.

Vondur matur getur aldrei orðið betri við það eitt að dunda við útlitið á honum, bragðið kemur upp um vonda matseld og það sama á við um stangaveiði. Menn bæta aldrei slæmt ástand með fréttum sem ekki standast. Ég vil allavega fá að vita stöðuna eins og hún er áður en ég legg af stað í veiðiferð, hvort sem hún er góð eða slæm. Stangaveiðiferð verður alltaf óvissuferð og hvort útkoman er góð eða slæm er fyrst og síðast undir hugarfari veiðimannsins komið.

Ég minnist þriggja daga veiðiferðar í austfirska laxveiðiá sem ég fór í fyrir mörgum árum. Veiðiferðar sem hefði getað endað í tómum leiðindum, allt vegna þess að veðrið var ekki á okkar bandi. Úrhellisrigning gerði það að verkum að áin vall um alla bakka, óveiðandi með öllu. Í stað þess að missa geðið niður í kjallara ákvað hópurinn að fara á silungsveiðar og var tekinn dagur í heiðarvatnaveiði. Síðan var farið á skak í framhaldinu. Síðasta morguninn var áin komin í nokkurn veginn eðlilegt ástand og menn settu í nokkra laxa.