*

Hitt og þetta 14. október 2013

Allt sem þú vildir ekki vita um bólusótt og fleira gott

Í nýjasta tölublaði Eftir vinnu er gagnleg grein með fróðleiksmolum um allt milli himins og jarðar.

Bjarni Ólafsson

Þegar vandræðalega þögnin leggst yfir partíið eins og blautt teppi eru nokkrar leiðir til að redda partíinu áður en gripið er í gítarinn í algerri andlegri uppgjöf. Amatörar geta rætt um veðrið og lengra komnir geta frætt nærstadda um nýjustu ævintýri Kardashian-fjölskyldunnar eða farið ítarlega yfir danshæfileikaleysi Miley Cyrus. Slíkt gæti hins vegar farið öfugt ofan í fólk í fínni partíum eða þar sem raungreinamenntað fólk er samankomið. Þá er gott að búa yfir nokkrum fróðleiksmolum til að fleygja í liðið.

Gulrætur hafa verið ræktaðar í þúsundir ára, en appelsínugulu gulræturnar sem við þekkjum svo vel komu ekki fram á sjónarsviðið fyrr en á sautjándu öld, einmitt í Hollandi. Fram að þeim tíma höfðu gulrætur verið gular, rauðar, hvítar og jafnvel fjólubláar á litinn. Sagan segir að appelsínugulu gulræturnar hafi verið ræktaðar til heiðurs prinsinum af Orange og ríkisstjóra hollenska lýðveldisins, Vilhjálmi III, sem var af Orange-Nassau-ættinni, en það getur líka verið eftiráskýring.

Vilhjálmur III varð konungur yfir Englandi árið 1688 þegar Jakob II Englandskonungi var steypt af stóli, en fyrsti Vilhjálmurinn sem sat í því hásæti, stundum kallaður Vilhjálmur bastarður, hrifsaði völdin með innrás árið 1066.

Ein af afleiðingum þeirrar innrásar var að yfirstéttin talaði frönsku á meðan almúginn talaði engilsaxnesku. Tungumálin tvö runnu með tíð og tíma saman í ensku nútímans, en vegna þessarar skiptingar hefur enska þá sérstöðu að rót húsdýraheita er gjarnan engilsaxnesk, á meðan rót orða yfir afurðir þessara dýra er frönsk. Kindur heita „sheep“ á meðan kindakjöt heitir mutton. Nautgripur er„cow“, „ox“ eða „bull“ á meðan nautakjöt heitir „beef“ og svo mætti lengi telja.

Bólusótt er skelfilegur sjúkdómur, sem dró marga forfeður okkar og -mæður til dauða. Þau sem ekki létust úr sóttinni báru gjarnan stór og ljót ör alla tíð eftir veikindin. Bólusóttin er náskyld kúabólu, sem leggst á nautgripi, og getur síðarnefndi sjúkdómurinn búið til ónæmi fyrir þeim fyrrnefnda. Þeirri kenningu hefur verið varpað fram að þarna sé að finna ástæðu þess að mjaltastúlkan er í sögum oft fallegasta stúlkan í þorpinu. Hún hefur smitast af kúabólu og þar af leiðandi náð að forðast bólusóttina skelfilegu.

Fyrstu dæmi um að kúabóla hafi verið markvisst notuð í bólusetningarskyni er frá Indlandi og Kína frá sautjándu öld. Íslenska orðið bólusetning, sem er nú notað í mun víðari skilningi, stafar frá þessari notkun, sem og enska orðið vaccination, en vacca þýðir kýr á latínu.

Fleiri fróðleiksmola, fyrir fólk sem vill slá í gegn í kokteilboðum og kaffiboðum, má finna í nýjasta tölublaði Eftir vinnu sem er komið út. Fylgist með Eftir vinnu hér á Facebook.