*

Tölvur & tækni 23. maí 2013

Allt til sölu hjá Atari

Hið aldraða tölvuleikjafyrirtæki Atari er að selja allar eignir sínar á uppboði.

Áhugasamir geta nú boðið í gömul og rótgróin vörumerki í tölvuleikjaiðnaðinum í uppboði sem hið aldraða fyrirtæki Atari Inc. stendur nú fyrir. Atari, sem er dótturfyrirtæki franska fyrirtækisins Atari SA (áður Infogrames SA), fór í greiðslustöðvun í janúar til að losna undan stjórn móðurfélagsins.

Markmiðið var að selja alla leiki og réttindin yfir þeim í einu lagi, en tilboðin sem bárust voru ekki í samræmi við verðhugmyndir Atari. Hefur því verið ákveðið að bjóða hvern leik til sölu í sérstöku uppboði. Í raun eru allar eignir fyrirtækisins til sölu, þar á meðal hið fornfræga vörumerki Atari.

Dýrasta eignin er RollerCoaster Tycoon leikjaröðin, sem skilað hefur töluverðum tekjum til fyrirtækisins. Verðmiðinn á þeim leik er um 3,5 milljónir dala, andvirði um 430 milljóna króna. Test Drive leikjaröðin mun kosta 1,5 milljón dala og Total Annihilation kostar 250.000 dali. Alls vill Atari fá 22,2 milljónir dala fyrir allt það sem í boði er.

Markmiðið er að afla nægilega mikils fjár til að greiða kröfuhöfum og til að fyrirtækið geti einbeitt sér að hönnun og sölu leikja fyrir snjallsíma.

Stikkorð: Atari