*

Ferðalög & útivist 7. október 2014

Alltaf hægt að finna eitthvað krefjandi

Auður Björk Guðmundsdóttir er nýlega komin frá Tyrklandi þar sem eitt áhugamálið fékk að njóta sín.

Þau eru fjölbreytt áhugamálin hjá Auði Björk Guðmundsdóttur, framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs VÍS, en hún er nýlega komin frá Tyrklandi þar sem eitt áhugamálið fékk að njóta sín.

„Ég er í ævintýraklúbbi með tíu konum sem fóru í hreint magnaða fjallahjólaferð til Cappadocia í Tyrklandi nú í byrjun september. Við Kríurnar, eins og við köllum okkur, förum a.m.k. þrjár til fjórar ferðir saman hér innanlands á hverju ári, bæði á fjallaskíðum og fjallahjólum, og höfum gert það síðustu fimm árin. Þessi ferð okkar nú til Tyrklands var 5 ára afmælisferð okkar sem var ævintýri líkast.“

Auður segir að áhugamálin séu frekar fjölbreytt en þau helstu snúi flest að nokkuð krefjandi útivist. „Fjallahjólreiðar, fjallaskíði, skotveiði, laxveiði og golf. Með fjallahjólið á toppnum, golfsettið, veiðistöngina og gönguskóna í skottinu er alltaf hægt að finna sér eitthvað krefjandi að kljást við. Við hjónin hófum sumarfríið í ár með góðum vinum í skemmtilegri gönguferð á Hornstrandir. Það gaf tóninn fyrir gott frí í kjölfarið í blíðunni á norðanverðu landinu. Á sumrin hjólum við, veiðum og stundum golf saman en á veturna nýtum við hvert tækifæri sem gefst til að fara á skíði. Undanfarin ár höfum við rennt okkur mest á Akureyri en nú ætlum við að vera meira á Sauðárkróki og Siglufirði þar sem við vorum að koma okkur upp bústað í Skagafirðinum.“

Skyggnst er inn í líf fleiri stjórnenda íslensks atvinnulífs í Eftir vinnu, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.