*

Heilsa 30. mars 2014

Alltaf klár í fótbolta

Björn Berg Gunnarsson spilar fótbolta og tekur líka árlega þátt í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka .

Björn Berg Gunnarsson, deildarstjóri fræðslu og viðskiptaþróunar hjá VÍB, eignastýringarþjónustu Íslandsbanka, segist ekki hafa stundað mikla líkamsrækt að undanförnu en það sem fær hann einna helst til að hreyfa sig er þegar hann kemst í fótbolta. „Það mætti segja að ef mér er boðið í fótbolta eða körfubolta þá er ég alltaf klár. Ég tek líka árlega þátt í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka og hleyp þá eins langt og ég get sem er svona sirka 10 km. Svo þegar lið í neðstu mögulegu deildinni eru að leita að leikmanni þá tel ég mig eiga ákveðið erindi og slæ oft til.“

Samhliða störfum sínum hjá VÍB gegnir Björn stöðu framkvæmdastjóra Knattspyrnufélags Vesturbæjar sem fagnar tíu ára afmæli á þessu ári en það lið tryggði sér sæti í 1. deild síðasta haust. „Eins og ég segi, ég reyni alltaf að komast í fótbolta þegar ég get, en ég er ekkert á leiðinni á völlinn með KV að vinna skallaeinvígi við Ármann Smára Björnsson á næstunni,“ segir Björn.