*

Hitt og þetta 27. október 2013

Alltaf verið drifin áfram að prófa eitthvað nýtt

Margrét María Leifsdóttir prjónar vettlinga sem vakið hafa athygli. Hún gaf út bókina Vettlingar/Mittens um síðustu jól sem sló í gegn.

Lára Björg Björnsdóttir

„Ég byrjaði að prjóna vettlingana í kringum páskana 2012,“ segir Margrét María Leifsdóttir, sem er fiðlusmiður og verkfræðingur að mennt og vinnur sem sérfræðingur á greiningarsviði Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins, á milli þess sem hún prjónar vettlinga.

Vettlingalína Margrétar Maríu hefur vakið mikla athygli. Hún hefur prjónað þá sjálf hingað til en nýlega hefur hún notið aðstoðar þar sem eftirspurn hefur verið mikil. Vettlingarnir eru úr 100 prósent ull. „Ég hafði verið að skoða tískusýningar á netinu og sá fyrir mér að sumt af því sem ég sá þar mætti túlka í prjóni. Ég veit ekki alveg af hverju vettlingar urðu fyrir valinu. Kannski af því að form vettlinga er svo fast mótað að mér fannst ég geta verið frjálsari í munstrinu án þess að hugsa mikið um snið,“ segir Margrét María.

Afasystir Margrétar Maríu kenndi henni að prjóna þegar hún var fimm ára og síðan þá hefur hún prjónað mikið og unnið mikið í höndunum. „Hún kenndi mér líka að drekka kaffi, reyndar mjög þunnt, sykrað og með mikilli mjólk,“ segir Margrét María og bætir við: „Fyrsta prjónaflíkin var röndóttur garðaprjónstrefill, sem tók mig örugglega eitt til tvö ár að prjóna. Ég hélt svo áfram að bauka við að finna út úr nýjum prjónaaðferðum og prófa að prjóna eftir uppskrift. Svo kom munsturprjónið einhvern tímann á unglingsárunum af því að mig langaði að gefa systur minni bleika peysu með jarðarberjamunstri. Þá var ekkert annað að gera en að reyna að læra það. Ég hef alltaf verið drifin áfram af þörf til að prófa eitthvað nýtt og sjá hvernig það kemur út."

Nánar er talað við Margréti Maríu í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér.