*

Bílar 11. október 2017

Alp vinnur þriðja árið í röð

Avis Budget á Íslandi er fyrst til að hljóta fyrstu verðlaun þriðja árið í röð á ráðstefnu móðurfélagsins í Aþenu.

Bílaleiga Avis á Íslandi hlaut fyrstu verðlaun fyrir framúrskarandi þjónustu og árangur á árlegri ráðstefnu Avis Budget Group í Aþenu í Grikklandi á dögunum.

Í verðlaununum felst viðurkenning á árangri Avis á Íslandi fyrir að hafa sýnt bæði mestan fjárhagslegan vöxt og framúrskarandi þjónustu á árinu á viðskiptasvæði Avis í Evrópu, Afríku og Mið-Austurlöndum að því er segir í fréttatilkynningu.

Rekur tvö af þremur aðljóðlegum merkjum

Avis Budget Group rekur tvö af þremur alþjóðlegum bílaleigumerkjum í heiminum, Avis og Budget, með um 10.000 leigustöðvar í nærri 200 löndum. Umboðsaðili Avis og Budget á Íslandi er Alp hf. sem rekur 8 leigustöðvar víðsvegar um land.

„Við erum ákaflega stolt af því að hljóta þessa viðurkenningu. Við höfum lagt mikið á okkur til að  standa betur undir væntingum og kröfum viðskiptavina okkar um þjónustu og gæði og megináhersla okkar undanfarin ár hefur þess vegna verið að bæta þjónustuferla okkar gagnvart viðskiptavininum.“ segir Hjálmar Pétursson forstjóri Avis Budget á Íslandi.

„Öll þessi vinna hefur skilað sér og það er stórkostlegt að fá viðurkenningu á því. Það sýnir vel að við hér á Íslandi getum náð frábærum árangri í alþjóðlegum samanburði þegar við leggjum okkur fram.“

Fyrsta landið sem hlýtur verðlaunin þrjú ár í röð

Þetta er þriðja árið í röð sem Alp hf. hlýtur viðurkenningu á árlegri ráðstefnu Avis Budget Group, en síðastliðin tvö ár hefur Alp hlotið sambærileg verðlaun fyrir framúrskarandi rekstur og þjónustu Budget bílaleigunnar. Ísland er því fyrsta landið í heiminum sem hlýtur þessa viðurkenningu þrjú ár í röð.   

„Við höfum eitt af víðtækasta leyfishafanet bílaleigu í heiminum og leyfishafar okkar eru sendiherrar vörumerkja okkar víðsvegar um heiminn,“ segir Jana Siber aðstoðarforstjóri Avis Budget Group.

„Avis á Íslandi hefur sýnt framúrskarandi getu til að fjárfesta í vörumerkjum okkar og láta þau vaxa hraðar en á samkeppnismörkuðum og veita um leið frábæra þjónustu við viðskiptavini og innleiða stefnumótun sem færir þau nær markmiðum Avis Budget Group í alþjóðlegu samhengi.“

Stikkorð: Grikkland  • Aþena  • Alp  • verðlaun  • Budget  • Avis