*

Tölvur & tækni 21. júní 2012

Alþjóðleg ráðstefna um upplýsingaöryggi á Íslandi

Tölvuglæpir og innbrot í tölvukerfi eru vaxandi ógnir hjá fyrirtækjum og stofnunum. Fjöldi sérfræðinga fjalla um málið í Hörpu í haust.

Þann 30 ágúst næstkomandi verður haldin, í tónlistar og ráðstefnuhúsinu Hörpunni, ein stærsta ráðstefna um tölvu- og upplýsingaöryggi sem haldin hefur verið á Íslandi. Ráðstefnan ber heitið Nordic Security Conference 2012 (NSC). Ráðstefnan er haldin að frumkvæði áhugamanna hér á landi um upplýsingaöryggi hjá fyrirtækjum og stofnunum, en tölvu- og upplýsingaöryggi fyrirtækja hefur verið töluvert í umræðunni, bæði hérlendis og erlendis. Tölvuglæpir og innbrot í tölvukerfi er vaxandi ógn hjá fyrirtækjum og stofnunum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá aðstandendum ráðstefnunnar.

Um er að ræða viðburð sem haldinn er í fyrst skipti á Íslandi og ætlaður bæði innlendum og erlendum áhugamönnum um efnið. Til landsins koma um 12 erlendir fyrirlesarar sem skapað hafa sér gott orð sem sérfræðingar á sviði tölvu- og upplýsingaöryggis. Á ráðstefnunni verða meðal annars ræðumenn eins og Don A. Bailey frá iSEC Partners og Chris Valasek frá Coverity.

"Ráðstefnan á sérstakt erindi til stjórnenda fyrirtækja og stofnana, yfirmenn tölvudeilda, ráðgjafa í upplýsingatækni og alla sem hafa áhuga á og vinna við upplýsingaöryggi," segir í tilkynningunni. 

Allar nánari upplýsingar má finna á heimasíðu ráðstefnunnar,www.nsc.is, en hægt er að skrá sig hér

Stikkorð: tækni  • Upplýsingaöryggi