*

Tölvur & tækni 28. janúar 2016

Amazon í samkeppni við Spotify og Apple Music

Smásöluvefrisinn ætlar sér í hart við tónstreymiþjónustur á borð við Spotify og Apple Music.

Karl Ó. Hallbjörnsson

Nú hyggst Amazon hefja samkeppni við Apple Music og Spotify. New York Post sagði frá þessu. Í frétt NYP segir að talsmenn Amazon eigi nú í viðræðum við helstu höfuðsmenn tónlistarbransans í áætlunum um að stofna til tónstreymiþjónustu sem myndi kosta eitthvað í kringum 10 Bandaríkjadali á mánuði.

Amazon býður þegar upp á tónstreymiþjónustu sem þeir kalla Prime - en fyrir árgjald í Amazon Prime-klúbb fyrirtækisins færðu aðgang að einhverjum milljón lögum sem boðið er upp á að kostnaðarlausu. Prime Music þjónustan býður þó ekki næstum upp á jafn víðtækan tónlistarkost og Spotify, og því hefur þjónustan hingað til varla verið tekin alvarlega sem nokkur keppinautur við Spotify eða Apple Music.

Í frétt NYP segir einnig að hugmynd Amazon sé að selja áskrift að þjónustunni samstíga með Echo-hátalara sínum. Hátalarinn hefur náð nokkrum vinsældum fyrir þær sakir að hann er búinn eins konar raddþjark á borð við Siri, sem fylgir með iPhone-snjallsímum, og Cortana, þjarki sem Microsoft bauð upp á. Áskrift að tónstreymiþjónustunni myndi þá kosta einhverju minna ef hátalarinn væri keyptur með - 3 eða 4 Bandaríkjadali.

Annað í fréttum varðandi smásölurisann er það að í fyrsta sinn í sögu fyrirtækisins hefur það keypt auglýsingu á Super Bowl-útseningartímanum. Þá mun Alec Baldwin leika móti Echo-hátalaranum í vonum um að vekja frekari athygli á snjallgræjunni.

Stikkorð: Amazon  • Spotify  • Apple Music  • Prime  • Bezos  • Echo