*

Tíska og hönnun 15. maí 2020

Amazon til bjargar hátískunni

Amazon kynnir nýtt framtak með Vogue. Fyrsta samstarf netrisans með hátískumerki.

Amazon og Vogue kynntu í gær nýja vefverslun sem kallast Common Threads: Vogue X Amazon Fashion. Finna má vörur 20 sjálfstæðra fatamerkja í hæsta gæðaflokki, þar á meðal 3.1 Phillip Lim, Brock Collection og Edie Parker. 

Anna Wintour, ritstjóri Vogue, sagði í tilkynningu tískufyrirtækisins að samstarfið væri til þess fallið að aðstoða lítil og meðalstór tískufyrirtæki sem eiga mörg hver í miklum rekstrarerfiðleikum vegna heimsfaraldursins. Margar lúxusverslanir sem selja hátísku fatalínur hafa þurft að loka tímabundið en einnig vöruhús sumra netverslana líkt og Net-a-Porter. 

Amazon, einn stærsti ef ekki stærsti smásalinn í Bandaríkjunum, sem sumir telja einn helsta keppinaut hátískumerkja kemur nú inn sem bjargvættur þeirra. Samkvæmt frétt New York Times hefur Jeff Bezos, stofnandi Amazon, lengi haft augu á þessum hluta tískugeirans en fyrri tilraunir líkt og myhabit.com náðu ekki fótfestu.

Hinn nýi vettvangur hátískunnar mun vera í beinni samkeppni við Alibaba Tmall. Common Thread verkefnið var stofnað í apríl síðastliðnum í samstarfi Vogue og Samtaka fatahönnuða í Bandaríkjunum (CFDA) til þess að veita fjárhagsaðstoð til sjálfstæðra tískuhönnuða, smásala og fataframleiðenda. 

Stikkorð: Jeff Bezos  • Amazon  • Anna Wintour  • Common Threads  • Vogue