*

Tölvur & tækni 21. september 2015

Amazon selur spjaldtölvu á 6.350 krónur

Nýjasta útgáfan af Fire spjaldtölvu Amazon er svo ódýr að hún gæti breytt landslagi á markaðnum.

Amazon mun hefja sölu á nýrri útgáfu á Fire spjaldtölvunni, en hún hefur vakið töluverða athygli vegna þess hversu ódýr hún er. Útlitslega er spjaltölvan hefðbundin útlits, er með sjö tommu skjá, tengist þráðlausu neti og er með 8 gígabæta geymsluminni. Örgjörvinn er fjórkjarna og skjákortið nokkuð gott. Verðið er hins vegar sérstakt, því tölvan mun aðeins kosta 49,99 dali, andvirði um 6.350 íslenskra króna.

Vefsíðan Seeking Alpha gerir tölvuna að umfjöllunarefni sínu og segir hana munu geta gerbreytt markaðnum með spjaldtölvur, einkum þær sem keyra á Android stýrikerfinu. Amazon hefur ekki verið í hópi þeirra spjaldtölvuframleiðenda sem flestar tölvur selja í tæpt ár. Í grein Seeking Alpha segir að tölvan gæti eyðilagt sölu á spjaldtölvum frá fyrirtækjum eins og Samsung, LG, Lenovo og Huawei. Enginn þeirra geti með góðu móti keppt við 50 dala verðmiðann.

Stikkorð: Amazon  • Spjaldtölvur