*

Menning & listir 27. nóvember 2014

Eltir regnbogann

Það er fátt sem stöðvar Lilju Birgisdóttur þegar kemur að listinni og notast hún ýmist við myndir, ljósmyndir eða myndbönd.

Edda Hermannsdóttir

Það sem einkennir fallegan regnboga er án efa litadýrðin sem fangar athygli flestra. Regnbogarnir á myndum Lilju Birgisdóttur listakonu eru því heldur óhefðbundnir enda myndaðir með svarthvítri filmu. Lilja elti regnbogann á sunnudagseftirmiðdegi í bíltúr að Þingvallavatni og afraksturinn varð sýning í Listamönnum galleríi við Skúlagötu.

„Þetta er oftast mjög sérstakt þegar maður er að vinna myndlist. Myndsköpun er órætt ferli. Maður byrjar á einum stað og endar á öðrum. Þessi sýning kom frekar hratt einhvern veginn. Ég hef ferðast mikið að undanförnu og þá sér maður ofboðslega margt, finnur nýja lykt, hlustar á nýja tónlist, hittir nýtt fólk og sér nýtt landslag. Allt öðruvísi en Ísland. Svo kemur maður aftur til baka og þá sést hvað við búum við mikla ofurfegurð.“

Lilja segir að það sé í eðli mannsins að finna fyrir vanmáttarkennd gagnvart náttúrunni því hún sé svo miklu stærri en maður sjálfur. Hún hafi ákveðið að fanga eitt andartak sem allir eigi einhvern tímann úti í náttúrunni.

„Ég var í bíltúr, það var búið að vera rigning og leiðindaveður, jörðin var blaut og við þau skilyrði magnast litirnir upp. Allt í einu braust sólin fram og það kom stórkostlegur heill tvöfaldur regnbogi. Mér fannst þetta svo magnað að ég varð að stoppa bílinn og dást að þessu. Ég þurfti að reyna að eigna mér þetta andartak og var einmitt með myndavél á mér. En það er svo fyndið, hvernig ætlar maður að mynda eitthvað sem er svo fullkomlega æðisgengið? Þetta er eitthvað sem náttúran er að gefa þér og maður getur aldrei fangað, og hvað þá með svarthvítri filmu!“

Nánar er spjallað við Lilju í Eftir vinnu sem fylgir Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.