*

Ferðalög & útivist 7. september 2012

Andfætlingar vorir

Heimshornaflakkarinn Halldór Friðrik Þorsteinsson skrifar um ferðalag frá Ástralíu til Pólonesíu-eyjaklasans.

Halldór Friðrik Þorstein

Af heimsálfunum sjö er Eyjaálfa minnst og Ástralía og Nýja Sjáland ásamt með Papua Nýju Gíneu mynda stærsta hluta hennar. Það er ekki nema 2ja tíma flug frá Balí í Indónesíu til Darwin í norður Ástralíu. Frumbyggjar Ástralíu eru mest áberandi í norðurhluta landsins og þar hafa þeir haft samfellda búsetu í tugi þúsunda ára.

Þeir skera sig úr þar sem þeir ráfa um strætin í hópum, umkomulausir og afskiptir. Frá Darwin er hægt að taka Ghan lestina frægu, alla leið til Adelaide í suðri, þriggja daga þægileg lestarferð. Frá Adelaide er síðan hægt að þræða „the Great Ocean Road“ til Melbourne sem er stórskemmtileg borg, rétt eins og Sidney. Maður hrópar upp yfir sig Vá! þegar maður ber augum í fyrsta sinn stjörnubjartan næturhimininn á suðurhveli jarðar því þar blasa við framandi stjörnur og stjörnuþokur, skartandi Magellan skýjunum með öðru.

Það er þriggja tíma flug frá Sidney yfir til Auckland á Nýja Sjálandi sem ekki var numið fyrr en á 13. öld af Maóríum, sem komu siglandi frá Pólonesíu-eyjaklasanum. Nýja Sjáland er allsnægtagarður. Þar vaxa ávextir af öllum gerðum, landbúnaður er blómlegur og það er unun að keyra um og horfa á landslagið með öllum sínum fjölskrúðuga gróðri og fallegu trjám. Í Wellington starfa 900 manns hjá Weda digital við að búa til teiknaðar bíómyndir og á teikniborðinu er m.a. Hobbitinn sem frumsýndur verður í desember. Bilbó baggi tekur sig eflaust vel út í nýsjálenska landslaginu þó Ísland hafi nú eflaust verið ofar í huga Tolkiens þegar hann setti hann saman.

Pistill Halldórs Friðriks Þorsteinssonar birtist í Viðskiptablaðinu 6. september síðastliðinn. Áskrifendur geta nálgast blaðið í heild hér að ofan undir liðnum Tölublöð.