*

Heilsa 21. febrúar 2013

Andoxunarefni ekki endilega svarið við heilsufarsvandamálum

Andoxunarefni í matvælum minnka ekki endilega líkur á heilablóðföllum og elliglöpum eins og áður var talið.

Andoxunarefni minnka ekki endilega líkur á heilablóðföllum og elliglöpum eins og áður var talið. Þetta eru niðurstöður nýrrar rannsóknar sem Elizabeth Devore hjá Brigham and Women´s Hospital í Boston leiddi. Fréttamiðillinn Health 24 segir frá þessum niðurstöðum í dag. 

Fólk sem drakk kaffi, te, rauðvín og borðaði appelsínur í miklum mæli, allt fæðutegundir sem innihalda andoxunarefni, voru allt eins líkleg til að glíma við heilsufarsvandamál á næstu 14 árum eins og þeir sem forðuðust matvæli með andoxunarefnum. 

„Þó að einhverjar vísbendingar séu um að ákveðin vítamín verndi heilastarfsemina þá er ekki ljóst hvort það eigi við um öll andoxunarefni,“ segir Elizabeth. 

Rannsóknin fór þannig fram að 5395 einstaklingar 55 ára og eldri skráðu niður hvað þeir borðuðu árið 1990 og næstu fjórtán árin. Fylgst var með þeim en á þeim tíma voru 599 greindir með elliglöp þar á meðal 484 með alzheimer og 601 fengu heilablóðfall. Þeir sem borðuðu andoxunarefni voru allt eins líklegir að fá þessa sjúkdóma. 

Þó er tekið fram að andoxunarefni í mat, eins og ávextir og grænmeti, hafa mjög góð áhrif á heilsuna svo fólk ætti alls ekki að hætta að borða hollan mat þrátt fyrir þessar niðurstöður. 

Stikkorð: Heilsa  • grænmeti