*

Ferðalög 20. janúar 2013

Andri Heiðar: Ógleymanlegt gljúfra-safarí á Hokkaido

Andri Heiðar Kristinsson er mikill ævintýramaður og hefur ferðast víða.

„Ein af mínum eftirminnilegri ferðum var sumarið 2011 þegar ég hafði nýlátið af störfum sem framkvæmdastjóri Innovit til að hefja MBA nám við Stanford háskóla,“ segir Andri Heiðar Kristinsson, stofnandi frumkvöðlasetursins Innovit.

Andri Heiðar segist mikill útivistamaður og er hann þaulvanur fjallamaður. Hann hefur meðal annars klifið Mt. Whitney í Bandaríkjunum og Kilimanjaro í Austur-Afríku.

„Ég ákvað að fara „lengri leiðina“ til Kaliforníu með viðkomu í Asíu og Suður-Ameríku. Eftir stutt stopp í Kína heimsótti ég góða vini og ferðaðist með þeim um Japan. Meðal hápunkta var þriggja daga gljúfra-safarí á eyjunni Hokkaido. Næst flaug ég yfir Kyrrahafið til Suður-Ameríku þar sem ég hitti nokkra væntanlega samnemendur mína og við heimsóttum Perú, Argentínu og Kólumbíu. Ævintýraleg lönd með ríkri menningu, sögu og áhugaverðu fólki,“ segir Andri Heiðar.