*

Hitt og þetta 11. mars 2016

Andstæði systkini

Bróðir Al Capone framfylgdi bannlögunum í Bandaríkjunum og systir Fidels Castro njósnaði fyrir Bandaríkin.

Bjarni Ólafsson

Það eru gömul sannindi og ný að á meðan maður getur valið sér vini situr maður uppi með ættingja sína, hversu ólíkir sem þeir eru manni sjálfum. Þrátt fyrir að eplið falli sjaldan langt frá eikinni, er ljóst að eplin geta fallið í mismunandi áttir og rúllað mislangt frá trénu. Þannig eru dæmi um fræga – eða alræmda – einstaklinga sem áttu ættingja sem voru í raun fullkomnar andstæður þeirra.

Bróðir Al Capone framfylgdi bannlögunum

Al Capone er, að öðrum mafíósum ólöstuðum, líklega frægasti meðlimur bandarísku mafíunnar fyrr og síðar. Hann tók stjórnina í Chicago-mafíunni á þriðja áratug síðustu aldar eftir mörg og blóðug stríð við aðra glæpahópa og efnaðist stórkostlega á því að selja borgarbúum áfengi, sem alríkisstjórnin hafði bannað. Foreldrar Capone voru barnmörg og dró Al að minnsta kosti einn bróður, Ralph, með sér í glæpasvaðið. Elsti bróðirinn, James Capone, fór hins vegar aðra og beinni braut í lífinu. Hann hóf störf fyrir áfengislögregluna (Bureau of Prohibition) og barðist við glæpamenn sem höfðu valið sér sama starfa og Al bróðir hans. Capone nafnið var hins vegar þá þegar orðið samofið skipulagðri glæpastarfsemi og taldi James sig því nauðbeygðan til að breyta um nafn. Kallaði hann sig James Hart og undir því nafni hóf hann svo störf sem sérlegur lífvörður Calvins Coolidge Bandaríkjaforseta. Hvorki forsetaskrifstofan né eiginkona James vissu um tengsl hans við hættulegasta glæpamann Chicagoborgar. Ferill James var svo eyðilagður af Ralph bróður hans. James hafði samband við bræður sína eftir að áfengisbanninu var aflétt og sættist við þá. Ralph notaði hins vegar nafn James til að stunda skattsvik – að James forspurðum – og þegar skattayfirvöld sáu nafn James Hart tengjast Ralph Capone með þeim hætti komst upp um ættartengslin og James missti vinnuna.

Systir Fidels Castro njósnaði fyrir CIA

Vart er þörf á að kynna Fidel Castro, fyrrverandi einræðisherra Kúbu, fyrir lesendum. Hann braust til valda í landinu í byltingu gegn einræðisherranum Batista og gekkst svo á hendur Sovétríkjunum. Kommúnistastjórn er enn við völd í Kúbu þótt Fidel hafi þurft að stíga til hliðar af heilsufarsástæðum. Fidel átti yngri systur, Juanita Castro, sem flúði til Bandaríkjanna strax árið 1964. Næstu árin á eftir mataði hún bandarísku leyniþjónustuna á alls kyns upplýsingum um Kúbu og stjórnvöld þar. Juanita smyglaði gögnum til og frá Kúbu og faldi sjálf fólk sem var á flótta undan kúbversku leynilögreglunni. Juanita varð svo fræg fyrir baráttu sína gegn kommúnisma í Mið- og SuðurAmeríku að bandarísk stjórnvöld sendu hana í sérlega ferð til Síle til að sannfæra almenning þar í landi um hættuna sem af kommúnismanum stafaði. Eftir fall járntjaldsins, þegar meiri þíða komst í samskipti Kúbu og Bandaríkjanna, lagði Juanita njósnaskóna á hilluna og lifði venjulegra lífi. Hún rak lyfjaverslun í Miami og skrifaði sjálfsævisögu þar sem hún greindi fyrst frá aukavinnunni fyrir CIA.

Nasistabróðir bjargaði hundruðum gyðinga

Reinhard Heydrich var einn verst innrætti og alræmdasti nasisti þriðja ríkisins og er óþarfi að taka fram að samkeppnin um þann titil er eitilhörð. Hann fékk viðurnefnið Slátrari Pragborgar og ekki að ástæðulausu. Reinhard átti bróður, Heinz, sem einnig var stuðningsmaður Nasistaflokksins til að byrja með. Eftir að Adolf Hitler komst til valda skildu leiðir bræðranna hins vegar. Reinhard hljóp upp metorðastigann innan SS og var meðal þeirra sem skipulögðu Kristalsnóttina og Helförina. Heinz skipti hins vegar alfarið um skoðun þegar hann sá að Hitler var full alvara þegar hann talaði um nauðsyn þess að „losna við“ gyðinga. Heinz var blaðamaður sem skrifaði gegn stjórnvöldum, að því marki sem það var hægt, en falsaði einnig vegabréf fyrir hundruð gyðinga og hjálpaði þeim þannig að flýja landið. Heinz framdi sjálfsmorð árið 1944 þegar hann taldi að leynilögreglan Gestapo væri á hælum sér.