*

Bílar 26. mars 2014

Anna Kristín gerði upp flottan Golf

Anna Kristín Guðnadóttir lauk meistaranámi í bifreiðasmíði árið 2012.

Róbert Róbertsson

Anna Kristín viðurkennir að hún sé með mikla bíladellu sem hafi smitast frá föður sínum, Guðna Þór Jónssyni. ,,Ég ólst upp við bíladelluna hjá pabba. Hann er löggiltur bílasali og starfaði hjá Heklu þegar ég var barn. Ég fór ekki á leikskóla eins og flest börn heldur var oft á bílasölunni hjá pabba og eyddi þar miklum tíma af mínum leikskólaárum,“ segir hún og brosir. ,,Þetta var auðvitað mjög gaman og ég vildi sem barn hvergi vera nema á bílasölunni. Ég var auðvitað sérlega hrifin af bílunum sem pabbi var að selja í Heklu og sérstaklega Volkswagen en einnig Mitsubishi. Eitt sinn þegar ég var um 5-6 ára kom pabbi heim á Toyota bíl og mér er það í fersku minni að ég var svo ósátt við pabba að ég rak hann af bílastæðinu og sagði honum að koma aldrei heim á öðru en Volkswagen-bíl nema þá kannski Mitsubishi,“ segir hún og hlær og bætir við að faðir sinn hafi staðið við það.

Sumum finnst skrítið að stelpa sé með bíladellu

Anna Kristín segist hafa þurft að kyngja þessu þegar henni var boðið starf hjá Toyota sem bifreiðasmiður. ,,Það má segja að Toyota hafi hækkað talsvert í áliti hjá mér þegar ég fór að vinna við bílana enda er auðvelt og þægilegt að gera við þá. Pabbi hafði auðvitað sérlega gaman af því þegar ég fór að vinna hjá Toyota og rifjuðum við stundum upp söguna frá því forðum.“

Anna Kristín segir að mörgum hafi fundist sérstakt að stelpa hefði svona mikla bíladellu. ,,Auðvitað voru þeir sem stóðu mér næstir vanir þessari bíladellu, fjölskyldumeðlimir, vinir og vinkonur en sumum finnst skrítið að stelpa hafi þetta mikinn áhuga á bílum. Mér finnst það eðlilegasti hlutur í heimi. Það er auðvitað fullt af stelpum þarna úti sem hafa gaman af bílum.“

Nánar er fjallað um málið í Bílablaðinu sem fylgdi Viðskiptablaðinu í síðustu viku. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð.