*

Bílar 4. desember 2021

Antík Benz með sterkan karakter

Sævar Þór Jónsson á forláta antík Mercedes-Benz sem vekur mikla athygli hvert sem hann fer.

Róbert Róbertsson

Sævar Þór Jónsson, lögmaður og eigandi stofunnar Sævar þór & Partners, hefur hin ýmsu áhugamál en ein aðalástríða hans eru bílar, bæði nýir og gamlir.

Sævar á 49 ára gamlan Mercedes-Benz af gerðinni 280 se 4.5 sem hann ekur oft þegar hann er að snattast fyrir lögmannsstofuna. Þessi týpa er svokallað W108 boddý frá Mercedes-Benz. „Þessi bíll hefur sterkan karakter og það er sérstök tilfinning að aka honum, sem maður finnur ekki í nýrri bílum. Þótt nútímaþægindi séu lítil þá er þetta ótrúlega skemmtilegt farartæki, Þetta er eitt vinsælasta boddý sem Mercedes-Benz hefur framleitt fyrr og síðar.

Þessir bílar eru ótrúlega sterkir og algjörir vinnuhestar. Bíllinn hefur verið hér á landi í um 20 ár. Bíllinn er lítið keyrður eða um 150 þús km. Hann var aldrei keyrður á veturna hér á Íslandi en var mest keyrður í Bandaríkjunum á sínum tíma.

Það eru til öll skoðunargögn og þjónustubækur og yfirlit yfir öll olíuskipti nánast frá upphafi. Bíllinn er allur nánast upprunalegur og hafa aðeins verið gerðar ein til tvær athugasemdir við skoðun á bílnum frá því að hann kom til landsins og það var vegna peru sem var biluð. Þá er upphaflega varadekkið enn í honum. Þetta kalla ég endingu,“ segir Sævar.

Hver er uppáhaldsbíllinn sem þú hefur ekið?

„Það myndi vera Mercedes-Benz S Class 500 4 Matic. Þetta eru sleðar sem hafa sportlega eiginleika og mikinn lúxus. Þetta eru kannski einu alvöru Mercedes-Benz bílarnir sem eru enn framleiddir. Mér þykir því miður vörumerkið hafa tekið niðursveiflu í gæðum og framboði á bílum. Mér finnst þeir framleiða of margar týpur og þær eru nánast allar eins.

Það er orðið erfitt að greina á milli týpa innan vörumerkisins og það held ég að muni koma niður á vörumerkinu til lengri tíma litið. Kannski breytist þetta með tilkomu rafmagnsbílanna frá Mercedes-Benz en þá ná þeir kannski að endurskipuleggja sig og ákveða hvaða tegundir þeir ætla að bjóða upp á í framtíðinni.“

Hver er draumabíllinn?

„Það er Mercedes-Benz S 63 AMG. Það er toppurinn. Ég var að vonast samt til að eftir því sem ég eldist að þessi Benz veira fari að læknast af mér og ég færi að vera skynsamari í bílavali en það hefur ekki enn gerst og á meðan svo er þá verð ég að nefna þessa týpu af bíl.“

Nánar er fjallað um málið í fylgiritinu Bílar. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.