*

Tölvur & tækni 5. júlí 2016

Apple aðstoðar við líffæragjöf

Nýtt stýrikerfi snjalltækja raftæknirisans Apple býður notendum upp á að skrá sig sem líffæragjafa.

Apple kynnti til leiks nýtt stýrikerfi sitt, iOS10, fyrir skömmu síðan. Það verður fáanlegt í september þessa árs og býður upp á ótal breytingar, helst í smáskilaboðaforritlingi stýrikerfisins, Messages.

Eitt hefur þó vakið sérstaka athygli, og það er að nú býður heilsuforritlingur símans, hvar maður getur fylgst með tölfræðiupplýsingum um heilsu sína og líkamsstarfsemi, gerir manni kleift að skrá sig sem líffæragjafa hjá samtökum líffæragjafa í Bandaríkjunum.

Ef eigandi símans lendir svo í slysi geta viðbragðsaðilar séð í opnunarskjá símans að eigandinn sé skráður líffæragjafi og gert ráðstafanir þaðan af. Ástæðan að baki breytingunni var að hluta til fremur persónuleg, að sögn Tim Cook, framkvæmdastjóra Apple.

Þegar Cook starfaði undir Steve Jobs, stofnanda fyrirtækisins, fylgdist hann með honum berjast við krabbamein í brisi. Þá þurfti hann á nýrri lifur að halda. Cook segir það hafa mótað sig allverulega. Fleiri en 120 þúsund manns eru á biðlista fyrir líffæragjöf í Bandaríkjunum og það bætist nýr aðili á listann á tíu mínútna fresti.

Stikkorð: Apple  • Bill Gates  • FBI  • Steve Jobs  • Tim Cook  • Líffæri