*

Tölvur & tækni 7. júní 2015

Apple breytir skilmálum sínum

Tæknirisinn er að hugleiða að horfa frá því að rukka 30% af sölutekjum Itunes og fleiri veitna frá fyrirtækinu.

Apple er í viðræðum við ýmsa aðila um að breyta samningum við plötuútgefendur og aðra sem veita margmiðlunarefni í gegnum tæknifyrirtækið. Þegar tónlistarveitan Itunes var stofnuð árið 2003 innleiddi stofnandi Apple, Steve Jobs, svokallaðan 70/30 „Apple skatt“ þar sem 30% af tekjum veitunnar runnu til Apple. Þessi regla var síðan innleidd inn í aðrar veitur Apple líkt og App store, þar sem Apple notendur geta hlaðið niður smáforritum.

Nýir skilmálar sem eru til umræðu eru liður í uppfærslum á helstu veitum Apple á borð við Apple TV, sjónvarpsveitu Apple, og Newsstand, þar sem hægt er að hlaða niður dagblöðum og tímaritum. Skilmálar til smáforritaframleiðenda munu aftur á móti haldast óbreyttir samkvæmt heimildum Financial Times um málið. 

Á síðasta ári greiddi Apple 10 milljarða út til smáforritaframleiðenda, plötuútgefendur og annarra sem miðla efni í gegnum veitur þeirra. 70/30 tekjuskipting þeirra hefur verið notuð hjá öðrum fyrirtækjum á borð við Google og Amazon sem bjóða upp á sambærilegar veitur.

Nánar er fjallað um málið í frétt Financial Times.