*

Tölvur & tækni 9. september 2014

Apple frumsýnir næstu kynslóð iPhone

Næstu iPhone-símarnir verða stærri og þynnri en iPhone 5S.

Tim Cook, forstjóri bandaríska hátæknifyrirtækisins Apple, og aðrir lykilstjórnendur fyrirtækisins sviptu í dag hulunni af helstu tækninýjunum úr smiðju fyrirtækisins. Næsta kynslóð iPhone snjallsímanna er það sem margir hafa beðið eftir. Þær væntingar hafa raungerst. Símarnir koma á markað í níu löndum 19. september næstkomandi. Þ.e. í Bandaríkjunum, Kanada og Bretlandi, Frakklandi, Þýskalandi og í Ástralíu, Hong Kong, Síngapúr og Japan. Þeir verða fáanlegir í öðrum löndum eitthvað seinna.

Tveir nýir iPhone-símar eru væntanlegir, iPhone 6 og iPhone 6 Plus. Fyrri síminn verður með 4,7 tommu skjá borið saman við 4 tommu iPhone 5S. Þá verður iPhone 6 Plus stærri eða 5,5 tommur sem er sambærilegt við Samsung Galaxy S5 og LG G3 og aðra síma sem margir þekkja.

Á sama tíma og símarnir stækka frá fyrri gerð þá verða þeir þynnri en t.d. iPhone 5S, sem er 7,5 millimetrar á breiddina. iPhone 6 verður 6,9 millimetrar en hinn 7,1 millimetri. 

Þá eru ýmsar nýjungar í boddínu. Símarnir nýju verða með hraðari örgjörva og var mikið úr því gert á ráðstefnu Apple að örgjörvinn er 50 sinnum hraðvirkari en fyrsti iPhone-síminn, vinnslan 50% hraðari og myndvinnsla rúmlega 80 sinnum hraðari en í fyrsta símanum.

Hvað myndavélina snertir þá verður hún 8 MP eins og í iPhone 5S. Búið er að bæta hana umtalsvert. Svo mikil er viðbótin að myndavélalinsan og annað innvols í henni stendur eilítið út úr baki símans.

Fylgjast má með kynningu á tækjum Apple hér

Stikkorð: Apple  • iPhone  • Tim Cook