*

Tölvur & tækni 11. júní 2012

Apple kynnir nýjungar á ráðstefnu í San Francisco

Árleg WWDC ráðstefna Apple hófst í San Francisco í dag. Nýjasta kynslóð MacBook Pro tölvunnar hefur þegar verið kynnt.

Það hafa margir beðið spenntir eftir WWDC2012 ráðstefnu Apple sem hófst í dag í San Francisco. Ráðstefnan er árlegur viðburður og voru allir 9000 aðgöngumiðarnir seldir á aðeins tveimur klukkustundum. Á heimasíðu Apple á Íslandi kemur fram að að miðaverð á ráðstefnuna hafi verið 1599 dollarar sem samsvarar um 190.000 íslenskum krónum.

Tim Cook, framkvæmdastjóri Apple, hóf leikinn á ráðstefnunni í dag. Hann tók við starfi framkvæmdastjóra af Steve Jobs, stofnandi Apple, í ágúst síðastliðnum og er þetta því hans fyrsta WWDC ráðstefna. Að því er fram kemur á vef fréttaveitunnar Reuters sagði Cook viðstöddum meðal annars frá því að viðskiptavinir fyrirtækisins hafa nú samtals hlaðið niður meira en 30 milljörðum Apple smáforrita. Valið stendur um 650.000 slík forrit sem Apple hefur hannað og útbúið.

Margir búast við að á ráðstefnunni muni Apple kynna sitt eigið landakortaforrit sem keppt geti á móti kortunum sem Google gerir aðgengileg á veraldarvefnum undir heitinu Google Maps. Á ráðstefnunni mun fyrirtækið jafnframt kynna nýtt stýriforrit í síma, iOS6.

Þá kynnti Apple í dag nýjust kynslóð MacBook Pro tölvunnar ef marka má það sem fram kemur á fréttavefnum CNET News. Tölvan er sögð sú léttasta af sinni gerð hingað til.

Búast má við áframhaldandi tíðindum af nýjungum frá Apple á næstu dögum. Meðal annars hefur verið hefð fyrir því að fyrirtækið kynni nýjar kynslóðir iPhone símanna á þessum samkomum þó raunin hafi ekki orðið sú á síðasta ári þegar síminn var ekki kynntur fyrr en í ágúst. Þá hafa sumir haldið því fram að búast megi við kynningu á Apple sjónvarpi, þó það séu ekki nema sögusagnir, enn sem komið er.

Stikkorð: Apple  • Tim Cook