*

Tölvur & tækni 6. desember 2011

Apple óttast ekki Kindle Fire

Kindle Fire-spjaldtölvan er mestselda lestólið frá Amazon. Forstjóri Apple segir eigendur tölvunnar uppfæra fljótlega i iPad.

Nýju spjaldtölvurnar frá Amazon og Barnes & Noble eru ódýrari en aðrar sambærilegar tölvur og því kaupir almenningur þær frekar en dýrari tæki. Fljótlega fá þeir sér hins vegar dýrari spjaldtölvur á borð við iPad-tölvuna frá Apple.

Þetta er mat Tim Cook, forstjóra Apple, og fjármálastjóra fyrirtækisins, Peter Oppenheimer. Þeir óttast ekki að ódýru spjaldtölvurnar ógni stöðu Apple á spjald-tölvumarkaðnum.

Kindle Fire-tölvan frá Amazon og Nook-spjaldtölvan frá Barnes & Noble eru um helmingi ódýrari en iPad-tölvan frá Apple.

Amazon setti Kindle Fire-tölvuna á markað í síðasta mánuði. Sölutölur hafa ekki verið gefnar upp en Amazon segir hálfa milljón eintaka verið pantaðar fyrir jólin og er þetta mest selda tölva fyrirtækisins til þessa. Hún er í öðru sæti yfir mest seldu spjaldtölvurnar á eftir iPad.

Í netútgáfu PC Magazine kemur fram að 40 milljón iPad-spjaldtölvur hafi selst síðan þær komu á markað í apríl í fyrra.

Stikkorð: iPad  • Apple  • amazon.com  • Kindle Fire