*

Tölvur & tækni 11. maí 2012

Apple sagt vinna að sjötommu iPad

Orðrómur er aftur á kreiki um það hvað tæknitröllin hjá Apple eru að dedúa á bak við luktar dyr.

Jón Aðalsteinn Bergsvein
 - jon@vb.is

Nýjar iPad-spjaldtölvur hafa í gegnum tíðina varla verið komnar í hillur verslana þegar orðrómur er kominn á kreik hvað muni prýða næstu kynslóð græjunnar. Nú er talað um það að Apple ætli að setja á markað í haust nýja og smærri spjaldtölvu á þriðja ársfjórðungi, það er að segja á milli júlí og til loka september. 

Breska dagblaðið Telegraph fjallar um málið í netútgáfu sinni í dag og vitnar til iMore-bloggsins sem sagt er hafa lumað á góðum heimildum í gegnum tíðina. Þar er græjan kölluð iPad-mini. Jafnframt er vitnað til annars bloggara sem skrifað hefur mikið um tæki og tól frá Apple sem heldur því fram að Apple hafi verið að prófa iPad með 7,85 tommu skjá. 

Ef af verður þetta álíka stór græja og spjaldtölvurnar frá Samsung og Kindle Fire-lestölvan frá Amazon. 

Samkvæmt þeim heimildum sem vitnað er til hér að ofan þá herma þær að sjötomman verði heldur ódýrari en þær iPad-tölvur sem Apple hefur dælt út á hverju vori síðan í apríl árið 2010. Ódýrasta iPad-tölvan sem er á markaðnum nú, þ.e.a.s. þriðja kynslóðin, kostar 499 Bandaríkjadali. Sjötomman sem er um þremur tommum minni en núverandi gerð, mun hins vegar verða helmingi ódýrari og kannski rúmlega það, á bilinu 200 til 250 Bandaríkjadalir. 

Eftir því sem Telegraph hermir mun skjárinn liggja á milli gæða Retina-skjásins í nýjustu iPad-græjunni og iPhone 4S. 

Stikkorð: iPad  • Apple